Þýski dómarinn Ervin Orb, hann var ekki allra

Siggi Héðinn við "væsinn".

Það hefur ekki farið fram hjá stangaveiðimönnum að Sigurður Héðinn, alias Siggi Haugur gaf nýverið út sína þriðju veiðibók. Hér birtum við lítilræði úr bókinni með leyfi Drápu, útgefanda bókarinnar. Þetta er sagan um „Dómarann“.

-Ég hef áður minnst á það að einn besti veiðimaður sem ég hef verið með í leiðsögn sé þýski dómarinn Ervin Orb. Hann var ekki allra, var t.d. mjög erfiður í húsi og alveg sérstaklega við matarborðið þar sem oft kom til mikils ágreinings milli hans og annarra gesta.En burtséð frá öllum hans kostum og göllum var hann einnalbesti veiðimaður sem ég hef verið með á bakkanum.

Það sem gerði hann svo góðan var tæknin sem hann notaði, þ.e.hvernig hann veiddi ána. Hann veiddi nefnilega alla hylji undir horni og notaði BARA hægsökkvandi línu með taum sem var nákvæmlega lengd stangarinnar. Annað atriði sem gerði hann sérstakan var að hann tók aðeins tvo fiska úr hyl og neitaði svo að veiða hann aftur þó svo að við ættum hann síðar í túrnum.

Kápan…

Það var engin áskorun fyrir hann að veiða hylinn aftur, að hans eigin sögn. Þetta gat orðið til þess að við fórum kannski bara einu sinni á bestu staðina. Þetta var ekki svo flókið þannig séð, en samt flóknara en virðist við fyrstu sýn. Það er svo margt sem hann kenndi mér og sýndi og margt af því var algjör nýlunda á sínum tíma og hafði ekki verið notað hér áður að mínu viti. Svo ég tali nú ekki um æfingarnar sem við lentum í við að veiða staði sem voru ekki veiddir og menn gengu framhjá vegna þess að það hafði ekki komið neinn fiskur úr þessum stöðum þó að þeir væru merktir eða bæru nafn árum eða áratugum saman. Þetta er sá veiðimaður sem ég hef lært hvað mest af og ég tel líka að aðferðar hans við veiðarnar séu einhverjar þær áhrifaríkustu sem ég hef séð á ferli mínum sem leiðsögumaður.

Eftirfylgjandi saga af Ervin Orb segir kannski allt sem segja þarf, og vil ég taka fram að sögusviðið er Norðurá í Borgarfirði. Á fyrstu vaktinni okkar áttum við svokallað Millisvæði sem var frá Glitstaðahyljum til og með Ketilsbroti. Þetta dróst þannig að við áttum að byrja við Brekku- og Glitstaðabrú sem var kannski ekki minn uppáhaldsdráttur – en hvað með það –og byrjar nú ballið.

Ég ákveð að byrja á Brekkubrúnni því að vatnið var þannig að það hljóti að vera fiskur þar. Við komum á staðinn og byrjum þannig að við erum svona 10-15 metrum fyrir neðan brúna og köstum á steinana sem eru neðst í strengnum þar sem hún byrjar að opna sig í breiðuna. Við erum búnir að vera þarna í svona 10-15 mínútur og þá segir karlinn allt í einu við mig: „Ziggy, þú þarft að fara niður í hús fyrir mig og ná í einn bjór, ég gleymdi honum í anddyrinu á herberginu mínu,“ þannig að ég rúllaði niður í hús til að gera karlinum til geðs. Þegar ég kem aftur til karlsins stendur hann aðeins neðar en þar sem við byrjuðum, svona um það bil fimm metrum fyrir ofan fyrsta steininn. Ég spyr hann hvernig gangi og hvort hann hafi séð eitthvað. Hann svarar eldsnöggt: „NO! This is just like a fucking graveyard.“

Hann er varla búinn að sleppa orðinu þegar upp kemur sporður við steininn og karlinn dregur inn línu og vippar á fiskinn og bang, hann tekur! Þá segi ég: „This must be the only ghost in this fucking graveyard.“ Karlinn fer að skellihlæja og segir: „Ziggy, yes, at least it is not a skeleton.“

Fisknum er landað og við ákveðum að fara annað og förum á Glitstaðabrúna. Þar nær karlinn tveimur fiskum sem er í raun frekar merkilegt svona á fyrstu klukkutímunum á seinnipartinum.Þegar við erum að fara af svæðinu nefni ég við hann að það verði nú einhver veiðin þegar við eigum Glitstaðabrúna að morgni í næstu yfirferð. Þá segir hann: „No, Ziggy, we are not going to fish this pool again.“

Ég hváði og spurði hvers vegna ekki og þá kemur svarið sem mér fannst mjög merkilegt og það var: „Ég tek bara tvo fiska úr hyl, því að hann er ekki lengur áskorun fyrir mig.“ Þar höfum við það! Það er margs að minnast frá þessum manni og hvað hann var í raun ómanneskjulegur og kaldur í allri nærveru en djöfull sem hann var góður veiðimaður.

Við slúttum þessu með einni af mörgun fluguuppskriftum bókarinnar, flugan Overtaker, til aðgreiningar frá miklu þekktari flugu, Undertaker. Gersovel lesendur:

Overtaker.

OVERTAKER

Uppskrift:

 Þráður:            Fire Orange UNI 8/0

Broddur:          Ávalt gull, flúorrautt og flúorgrænt floss (glo bright)

Stél:                 Hausfjöður af gullfasana

Vöf:                 Ávalt gull

Búkur:             Grænt holograf eða döbbuð græn englahár

Skegg:              Svört hæna

Vængur:          Svartur

Kinnar:             Frumskógarhani – má sleppa

Haus:               Svartur eða rauður