Ársæll Þór Bjarnason með þann stóra, það var kannski óþarfi að troða honum inn í linsuna, við trúum því alveg að þetta hafi verið 98 cm tröll!

Heimasíða Miðfjarðarár á FB greindi frá því í dag að 98 cm lax hefði veiðst í Austurá og er það sá stærsti sem VoV hefur haft spurnir af það sem af er þessu sumri. Auðvitað á margt eftir að breytast, mikið eftir. Heildarmyndin virðist vera sú, að það er ekkert allt vaðandi í laxi, en það er þokkalegur reytingur af stórlaxi, ef til vill meira en menn þorðu að vona og svo hefur smálax verið að sýna sig með vaxandi straumi.

Sá stóri í Miðfjarðará veiddist í Laxapolli í Austurá, en sá hylur er lengst uppi í gljúfri. Menn hafa verið að sjá og setja í fiska víða á Miðfjarðarársvæðinu.

Sturla Birgisson staðarhaldari við Laxá á Ásum með fallegan lax úr ánni í morgun.

Þá var opnun í Laxá á Ásum í morgun og komu þrír á morgunvaktinni og eitthvað settu menn í og misstu. Þá sást lax víða, m.a. í Langhyl sem lengi vel var efsti alvöru veiðistaður árinnar.

LV birti sínar fyrstu vikutölur í kvöld, þar var fátt um fína drætti, enda vertíðin rétt að byrja. Þar voru gefnir upp 20 laxar í Blöndu, 9 löxum minna en greint var frá í frétt VoV í gærkvöldi. Kannski öll gögn komin til grafar þar. Fjórtán laxar úr Laxá í Kjós, þar sem mun styttra er síðan að opnað var. Þá er nýtt svæði dottið inn, Skuggi í Hvítá, sem nær reyndar nokkuð inn á neðsta hluta Grímsár líka. Átta laxar skráðir þar