Smálax lætur vaða í Fossinn í Elliðaánum. Ath að myndin er ekki ný. Mynd Heimir Óskarsson.

Næsti laugardagur, 20.júní er gríðarstór, en þá opna all nokkrar af helstu þungavigtarám landsins. Má nefna Víðidalsá, Vatnsdalsá, Laxá í Aðaldal, Elliðaárnar og Ytri Rangá. Óhætt er að segja að eftirvænting ríki meðal laxveiðiáhugamanna, en víðast hvar er nokkuð síðan að lax sást á sveimi í flestum eða öllum ánum.

„Við opnun eftir hádegið á laugardaginn. Það sáust sex stórlaxar neðan við brú í morgun. Um hádegið voru þeir horfnir, gengnir upp. En hvað gerist svo á laugardaginn veit enginn maður hefur heyrt allar sögurnar um laxana sem sáust og sáust svo aldrei aftur““ sagði Pétur Pétursson leigutaki Vatnsdalsár í dag, er hann var í óða önn að undirbúa vertíðina sem, eins og komið hefur fram ef hans síðasta við Vatnsdalsá.

Í Elliðaánum sást fyrst lax þann 25.mai og hefur bætt í jafnt og þétt. Laxinn líka fært sig ofar, þannig sást lax fyrir ofan Árbæjarstíflu í gær. Minnandi er á, að stórfelldar breytingar hafa verið gerðar á veiðifyrirkomulagi í Elliðaánum, aðeins verður veitt með flugu og öllum laxi sleppt.

Þá er nokkuð síðan að laxar sáust í Laxá í Aðaldal og Ytri Rangá, en prýðis veiði hefur verið í eystri ánni síðustu daga.

Stóri dagurinn er sem sagt á laugardaginn, en á morgun er ein fræg enn að opna. Það er Langá á Mýrum. SVFR greindi frá því að teljarinn í Skuggafossi hafi verið opnaður 5.júní og fjórum dögum seinna höfðu tíu stórlaxar og einn smálax gengið um teljarann. Síðan hefur verið vaxandi straumur og reikna má með að vel hafi bæst við. Opnunin lofar því góðu.