Ekki sumar laxveiðimanna!

Þetta er Gaula í Noregi. Búið að loka henni tímabundið út af hitabylgju og vatnsleysi. Það eru fleiri í vandræðum en vér Íslendingar.

Það eru fleiri í vandræðum útaf hita og þurrkum en vér Íslendingar, í Noregi er nú búið að loka einni frægri laxveiðiá tímabundið og fleiri gætu fylgt, enda gengur nú svæsin hitabylgja yfir frændur okkar í Skandinavíu og heimamenn telja að enginn lax sem væri veiddur og sleppt, myndi lifa af þessar aðstæður.

Þetta er áin Gaula, sem er eitt af flaggskipum Noregs. Þar hefur lofthitinn verið 32 gráður í dag og vatnshitinn 20 gráður. Það er hættulegur kokteill fyrir laxinn og því hefur ánni verið lokað að sinni. Þar sem ástandið er svipað um nánast allan Noreg, þá er ekki ólíklegt að fleiri ár verði lokaðar af sömu forsendum.

Hér á landi er lofthitinn blessunarlega ekki jafn hár, yfirleitt í kringum 20 stigin og vatnshitinn eftir því. Vestanlands og á vestanverðu Norðurlandi er þetta ástand til sérstakra vandræða, en þó að vatnshitinn verði hár, þá hafa 20 gráður í lofthita minni áhrif en 30plús….næg eru vandræðin með lága vatnsstöðu í hitanum og sólinni.