Urriðavæðin í Þingeyjarsýslu sprelllifandi

Einn þriðji hluti VoV gerði víðreist um urriðalendur í Þingeyjarsýslum síðustu átta daga eða svo. Það var víða komið við og sanniðst hið fornkveðna að það er fleira fiskur en lax og ef menn fara með því hugarfarið méð réttar græjur, þá fá menn fullkomlega það sama útúr silungsveiðum, enda eru gæðin hér á landi fullkomin og hvergi betri.

Urriði
Við gefum hér Jóni Eyfjörð eftir frásögnina: „Svæðin sem við fórum á voru Presthvammur, Syðra Fjall, Staðartorfa, Árbót og Laxárdalur í Laxá, Mýrarkvísl, Arnarvatnsá og Litlaá í Kelduhverfi. Alls staðar vorum við í fiski, mismikið, en alls staðar vorum við í fínum málum,“ sagði Jón.

Sundurliðum þetta síðan aðeins:

„Litlaá. Við vorum með fimm stangir þar , bæði í ánni og vatninu og fengum á annað hundrað fiska. Algert mok. Stærsti urriðinn var 63 cm og stærsta bleikjan 69 cm. Allur fiskur þar mjögt vænn. Það hafa veiðst þarna vel á annað þúsund fiska síðan í vor. Mest veiddum við ofarlega í ánni og í vatninu, en fórum samt niður í ós og þar var allt fullt af sel. Við sáum staðbundna urriða þarna sem voru í það minnst vel yfir 80 cm, rosalega stórir, en þennan dagin voru þeir ekki að taka,“sagði Jón.

„Mýrarkvísl. Þar vorum við í tvo daga með 4 stangir. Sumir í hópnum óvanir. Þarna hefur verið fín urriðaveiði í allt vor. Fengum slatta af fiski, urriða, sem flestir voru um 40 cm, en nokkrir voru stærri, allt upp í 60 cm. Svo afrekuðum við að fá fyrsta laxinn. Það var samt sérstakur lax, rétt um 60 cm, horaður og ekki sérlega fallegur. Mögulega endurkomulax.

„Arnarvatnsá: Hún er full af fiski og þar hefur veiðst vel að venju. Við vorum þar hálfa vakt og fengum fimm fiska. Allir fremur smáir, en við sáum þessa venjulega drjóla, þeir voru bara ekki að taka þann daginn.“

„Syðra Fjall. Þar vorum við í einn dag og fengum 12 fiska. Þetta var fínn  dagur og veiðin þar hefur verið góð í vor. Þetta voru vænir fiskar, upp í tæpa 60 cm og þeir voru að taka rétt undir yfirborðinu, þannig að við vorum með smáar straumflugur og óþyngdar púpur.“

„Staðartorfa. Þar var veiðin allt í lagi hjá okkur og hefur verið í vor. Það er svo lítið vatn í ánni að ég óð yfir og kastaði með leyfi á Presthvamm og fékk þá þrjá algera drjóla, tvo 62 cm og einn 64 cm. Staðartorfumegin fengum þrjá á vaktinnu, alla fína.“

„Árbót. Þar vorum við bara tvo og hálfan klukkutíma. Búnir að fá þrjá stutta og einstaklega feit aurriða þar þegar veiðifélaginn fékk fluguna í eyrað og ekki dugði minna en að aka niður á Húsavík eftir aðstoð.“

„Laxá í Laxárdal.Síðast en ekki síst. Þar hefur veiðst býsna vel það sem af er og nánast allur fiskur er þar stór. Við vorum eina vakt og lönduðum þremur sem allir voru 60 til 63 cm. Það hefur verið normið á svæðinu í sumar og varla að smærri fiskar sjáist.“