Ástandið við Tungulæk um helgina!

Veðrið hefur nú aðeins lagast eftir viðbjóð helgarinnar. Er samt engan vegin að ná því að geta kallast vor enn sem komið er. En mynd ein sem við hnutum um í óveðri helgarinnar segir stærri sögu en mörg orð….

…þetta var sem sagt mynd sem að veiðiklúburinn Strengur birti frá Tungulæk. Fyrsta hollið gat lítið sem ekkert veitt vegna veðurs, en næsta holl fékk smá glugga og veiddi vel. Svo kom helgin góða og þá voru menn fyrir austan, en gátu lítið athafnað sig. Skruppu þó út og þá var þessi táknræna mynd tekin.

Hún er tekin við Réttarhyl, sem er rétt ofan við brúna yfir ána á Landbrotsvegi. Á myndinni má sjá að áin er mikið til á ís og annars staðar krapi. Þetta vekur hvað mesta athygli og segir stærri sögu í ljósi þess að það er gríðarlega sjaldgæft að Tungulækur leggi. Undirritaðu hefur rúmlega tuttugu ára reynslu af Tungulæk, aðallega í vorveiði. Marg oft verið þar til að taka myndir í opnun árinnar og síðan komið seinna í apríl til veiða, og síðan jafnvel aftur svona viku af mai. Öll þessi ár, hefur undirritaður aðeins einu sinni komið að ánni á ís. Hún er með frekar jafn köldu lindarvatni og er ekkert lík dragám, eins og t.d. Geirlandsá. Frekar eins og Sogið. Að sjá ána svona er þess vegna til marks um einstaklega óvenjulegt árferði.

En það er komið í ljós eins og fyrri daginn, að mikið er af fiski. Á svona köldu vori má auk þes búast við því að fiskur þjappist ekki snemma á neðstu veiðisvæði….og að vorvertíðin standi lengur fram í mai en venjulega. Birtingurinn þarf ákveðna birtu og hitastig til að „smolta“ og ganga aftur til sjávar.