Sjóbirtingur, Varmá
Glæsilegur sjóbirtingur. Mynd -gg.

Sú var tíðin að mikil og góð sjóbirtingsveiði var í báðum Rangánum, en hann gaf verulega eftir þegar að aukning var í sleppingu gönguseiða laxa. Nú hefur Einar Lúðvíksson umsjónarmaður Eystri Rangár tekið málið í sínar hendur og sjóbirtingsveiði í ánni er í ár miklu betri en verið hefur hin seinni ár.

Einar sagði í samtali við VoV í dag: „Það eru komnir yfir 200 fiskar í silungabókina í Eystri og mest af því sjóbirtingur og besti tíminn eftir. Ég sleppti sjóbirtingsseiðum í Eystri 2014 að mig minnir og þau eru loksins að skila sér, því þetta er fjórum sinnum meiri veiði í sjóbirtingi en hefur verið í Eystri. Í Þverá og Affalli er uppsveiflan bara tvöföld en þar hefur engum seiðum verið sleppt.“

Náttúruleg uppsveifla hefur verið í sjóbirtingsstofnum síðustu árin og flestar sjóbirtingsár á Suðurlandi fullar af sjóbirtingi þó að veiðinj hafi ekki verið í stíl, enda skilyrðin til veiða yfir höfum mjög slæm. Þegar svo við bætist að seiðum sé sleppt af kunnáttumanni þá er málið bara hið besta. Gaman væri að Eystri Rangá kæmi til baka sem afburða sjóbirtignsveiðiá þó að laxinn sé það sem allt snýst um þar um slóðir.