Langadalsá
Fallegur lax úr Langadalsá. Árið er 2018. Mynd David Thormar.

Augljóslega er enginn að veiða akkúrat núna og spurning hvenær einhver vogar sér aftur út á árbakkann. Í millitíðinni ætlum við rifja upp gamlar veiðisögur. Við höfum skráð þær all nokkrar í árbókunum sem við gáfum lengi út, en hættum fyrir nokkrum árum. Hér er ein frá fyrstu bókinni, 1988:

Sagan heitir: Laxveiði kostar stundum meira en peninga. Og hún var, og er, svohljóðandi: „Laxveiðin kostar stundum meira heldur en bara peningafúlgur, fyrir kemur að heilsan fer að auki. Maður nokkur var að veiða á Hrauninu í Elliðaánum í sumar (1988), beitti svartri Frances og setti von bráðar í fisk. Hann var búinn að missa þá nokkra er hér var komið sögu og þegar þessi fiskur lak ekki af eins og skot eins og alir hinir, fór hann að girnast fiskinn ógurlega. Þennan ætlaði hann að taka með heim hvað sem það kostaði.

Nú vandaði okkar maður sig alveg sérstaklega með þennan lax sem honum sýndist vera 5-6 pund og spegilfagur. Loks kom hann laxinum upp að landi, en í stað þess að sporðtaka hann eins og hann var vanur að gera, renndi hann fiskinum upp á land. En það hefði hann ekki átt að gera, því flugan losnaði úr fiskinum sem tók þegar í stað að sprikla sig í átt að heimkynnum sínum. Karlinn ætlaði nú ekki að sjá af kvöldmatnum og kastaði sér á laxinn, greip hann og reis upp, en hrasaði aftur og missti hann. Skall um leið harkalega á hraunið. Hann skeytti engu um sársauka hér og þar, klóraði sig á eftir laxinum sem var í þann mund að ná vatnsborðinu, greip aftur í laxinn, en hrasaði aftur og missti laxinn. Var nú okkar maður hálfur úti í á, en tókst samt að ná sporðataki augnablik. En laxinn reif sig lausan og í síðasta atganginum hrutu gleraugun af nefi veiðimanns og brotnuðu.

Laxinn var farinn sína leið, en eftir stóð veiðimaður titrandi með þríbrotinn handlegg, hruflaða höku, svarta Frances á kafi í lærinnu og brotin gleraugu.

Nokkrum dögum seinna var vinurinn kominn á stúfana, það sást til hans í veiðivörubúð í Reykjavík. Hann var að kaupa svartar Frances flugur, vinur hans átti nefnilega dag í Elliðaánum „á morgun“ og hann var félaginn á stönginni. Hendin var í gifsi, en hvaða máli skipti það? Það var helst að sjá á honum að hann ætlaði að endurtaka ævintýrið“

Sagan er ekki lengri, við vitum ekki hvað gerðist næst, en það er mögulega aukaatriði. Bara hugurinn sem skiptir máli.