Það hefur rofað til í Fnjóská sem var eitt af helstu skaðræðum vatnavaxtanna á dögunum. Mikið hefur dregið úr þeim og lax farinn að ganga, finnast og taka!

Stangaveiðifélagið Flúðir, sem leigir Fnjóská, heldur úti FB síðu og þar var færsla þann 9.7 þar sem greint var frá því að vatnið hefði sjatnað verulega í ánni, hún var þá 125 m3/sek, og liturinn skaplegur. Á síðdegisvaktinni daginn áður höfðu menn landað þremur löxum og misst fleiri. Í gær var svo Karl Jónsson með færslu á sömu síðu, hann ásamt Olgeiri Ísleifi Haraldssyni, höfðu landað fjórum af sex löxum sem þeir höfðu sett í. Allt voru þetta laxar frá 80 cm og stærri. Þannig að vonandi eru bara góðir dagar fram undan.