Fnjóská, Matthías Þór Hákonarson
Glæsileg hrygna úr opnun Fnjóskár, myndina tók Matthías Þór Hákonarson.

Segja má að laxveiðivertíðin hafi byrjað vel. Mikil óvissa hefur verið síðustu sumur sem hafa verið sérlega misjöfn. En þótt byrjunin sé góð þá er ekki útséð enn, hvað verður mikið af smálaxi og hvenær verða þær göngur komnar í árnar og sestar? Þá heldur áfram nýjasta nýtt hvað laxinn er að færa sig fram á vorið.

Rafn Valur Alfreðsson, Miðfjarðará
Rafn Valur Alfreðsson, leigutaki Miðfjarðarár með glæsilega hrygnu úr opnun árinnar.
Miðfjarðará
Tveggja ára laxinn kemur stríðalinn úr hafi. Myndin er frá Miðfjarðará.

Ár hafa verið að opna síðustu daga, t.d. Miðfjarðará sem gaf 25 laxa fyrsta daginn og 14 til víðbótar næsta morgun eftir. Mest allt var þetta fallegur tveggja ára lax, 80 til 90 cm. Fram kemur í statusum á FB að lax hafi fundist víða í ánni.

Matthías Þór, Fnjóská
Matthías Þór Hákonarson með glæsilega lax úr Fnjóská.

Þá voru menn einnig að opna Fnjóska um helgina og veiddist þar einn lax á fyrstu vakt, 87 cm úr Urriðapolli á rauða Frances. Síðan hafa menn tínt upp laxa hér og þar, t.d. í Rauðhyl og Kolbeinspolli. Eins og margir muna var Fnjóská afar döpur í fyrra og óskandi að þessi líflega byrjun viti á betra í ár.

Annars er Urriðafoss aðal stjranan eins og í fyrra. Þegar angling.is birti sínar fyrstu vikutölur s.l. fimmtudag voru komnir 211 laxar á land á fjórar stangir. Síðan þá hefur veiði áfram verið góð og tilhlökkunarefni að sjá næstu tölur. Tilraunasvæðið á öndverðum bakka hefur einnig gefið laxa.

Á sama tíma voru Þverá/Kjarrá með 124 laxa og verið líflegt þar líka síðan, sem og í Norðurá sem sat í 95 löxum. Blanda var síðan síðasta áin á þessum fyrsta lista angling með 52 laxa á fjórar stangir sem verður að teljast viðunandi miðað við að éin hefur verið vatnsmikil og á stundum fremur lituð.

Austurbakki Hólsár
Fyrstu laxarnir af austurbakka Hólsár. Myndin er fengin af fréttasíðu IO veiðileyfi.

Hvað meira? Hítará opnaði og var fjórum snarað þar á land á fyrstu tveimur tímunum og fyrstu laxarnir hafa veiðst á austurbakka Hólsár í Rangárþingi, neðan við ármót Þverár og Eystri Rangár, frá því greindu eigendur IO veiðileyfi sem selja veiðileyfi í svæðið. Veiði hefst í Ytri Rangá á miðvikudag og þar hafa laxar sést á sveimi og í loftköstum. Þá fer „klakveiðin“ í Eystri að hefjast og þar hafa einnig sést laxar. Af öðrum sem ekki hafa opnað enn, en sést til laxa má nefna Selá, Víðidalsá, Elliðaárnar og fleiri. Og að ógleymdri Langá sem opnar í fyrramálið. Þar er orðið nokkuð langt síðan að lax sást og komnir á áttunda tuginn upp fyrir laxastigann í Skuggafossi og mikið líf að sjá neðan við hann.

                                        Smálaxinn að koma snemma

Þar eru ekki aðeins stórfiskarnir sem eru að koma æ fyrr í árnar, það sama má segja um smálaxinn það sem af er. Slíkir hafa sést og veiðst í Þverá, Norðurá, Laxá í Kjós og víðar. Sá merkilegasti til þessa var þó eflaust 5 pundari sem Vigfús Orrason landaði í Fljótaá í Fljótum í gær. Laxveiðitíminn er ekki byrjaður í Fljótaá, en að undanförnu hafa verið tvær tilraunastangir að athuga með sjóbleikju sem hefur verið að ganga í ána æ fyrr síðustu sumur. Þær veiðar hafa gengið vel að sögn Vigfúsar og bleikjan stór og falleg, en laxinn kom honum í opna skjöldu. „Fljótaá er þekkt síðsumarsá og það hefur jafnvel gerst að það veiðist ekki í henni lax fyrr en júlí er hálfnaður. Ég hef einu sinni áður veitt lax í ánni svona snemma, en það var stór fiskur eins og fyrstu laxarnir eiga að vera. Ég veit því ekki hvoru ég var meira hissa yfir, að fá lax í ánni svona snemma sumars eða þá staðreynd að þetta smálax,“ sagði Vigfús. Annars verður formleg opnun laxatímans n.k. fimmtudag og sagði Vigfús fleiri laxa hafa sést, m.a. einn mjög stór í Berghyl.