Vatnslítið í Hrútu, en það er fiskur að reyna…

Svona er nú ástandið á Hrútafjarðará þessa daganna, fáránlega lítið vatn. Mynd Sterngir.

Veiði hófst í Hrútafjarðará í gær, fyrr en venjulega, en  skilyrðin settu brennimerki sitt á veiðiskapinn, áin afar vatnslítil og árangurinn eftir því. Sem sagt, enginn lax kom á land, en það er samt fiskur í ánni og ef skilyrði batna þá fer allt í gang.

„Já, við vorum að opna í gær. Enginn lax kom á land. Það er lax í einum hyl uppi í á, en annars er fullt af laxi neðst í Dumbafljóti, neðst í ánni. Hann er þar að reyna að troða sér. Eins og sjá má af myndinni af Réttarfossi, þá er ekkert vatn. Það er þó bót í máli að það er lax á ferðinni og svo eru að veiðast vænar sjóbleikjur,“ sagði Þröstur Elliðason í skeyti til VoV í kvöld.