Brynjudalsá
Fallegur smálax. Mynd -gg.

Stangaveiðifélagið Sporðablik, sem um langt árabil hefur leigt veiðina í Laxá í Leirársveit, hefur nú bætt við tveimur smærri vatnsföllum ofar í kerfinu, Selós og Þverá í Svínadal, “Stubbana”, sem renna milli vatna á þeim slóðum. Talsvert gengur af laxi í þær og mikil hrygning fer þar fram á haustin.

Vötnin í Svínadal eru þrjú, Eyrarvatn er neðst, Þóristsaðavatn í miðjunni og Geitabergsvatn efst. Selós tengir mið vatnið og neðsta vatnið, Þverá tengir miðvatnið og efsta vatnið. Báðar eru þær að upplagi vatnslitlar en geta orðið stæðilegar þegar vætu gerir, enda vilja landeigendur að Stubbanafniðð hverfi með tíð og tíma. Talsvert gengur af laxi í þessar ár og eru þær mikilvægar hrygnignarslóðir.

Selós, Svavar Guðnason
Gömul mynd tekin í efsta veiðistað Selóss og það er Svavar heitinn Guðnason myndlistarmaður sem er að glíma við lax sem fer í loftköstum. Myndina tók Haukur Geir Garðarsson.

Haukur Geir Garðarsson, einn eigenda Sporðabliks sagði að árnar hefðu um árabil verið á vegum lokaðra veiðiklúbba sem hefðu nýtt veiðina innan sinna raða. Árnar kæmu nú í fyrsta skipti á opinn markað. “Við munum selja þær í 6 daga pökkum. Stakir dagar með 15 daga millibili. Á hverjum degi veiða menn hálfan daginn í Selósi og hálfan daginn í Þverá. Veitt er á eina stöng í hvorri á, en hverri stöng fylgir að auki tvær stangir í norðanverðum vötnunum þremur, þetta er því skemmtilegur fjölskyldukostur. Þarna getur verið mjög líflegt þegar skilyrði eru góð og laxinn kominn og margar fræknar veiðisögur eiga rætur sínar á þessar slóðir, enda er oft mikið af fiski á þessum slóðum.” sagði Haukur Geir.

Við þessi tíðindi rifjaðist upp í kolli ritstjóra VoV skemmtileg veiðisaga sem Rafn heitinn Hafnfjörð sagði einu sinni. Hann var þá að veiða í Selósi og landaði tveimur fiskum á stuttum tíma og voru báðir svo eftirminnilegir fyrir vöxt og gæði að hann var knúinn til að skrifa veiðisögu þar um. Fiskarnir tveir voru annars vegar silfurbjartur 7 punda laxhængur og hinn 7 punda spikfeitur staðbundinn urriðahængur.