Netin fara í Ölfusá og Hvítá í sumar – málið fyrir dómsstóla

Árni Baldursson, Ásgarður, Ásgeir Ebenesar
Árni Baldursson að glíma við boltafisk í Ásgarði í fyrra. Myndina fengum við að láni af FB síðu Ásgeirs Ebenesar.

Netin verða sett út í Ölfusá og Hvítá í sumar þrátt fyrir ríflegan meirihluta atkvæða gegn því á aðalfundi Veiðifélags Árnesinga á síðasta ári. Þetta staðfesti Árni Baldursson leigutaki og landeigandi í héraðinu í samtali við VoV. Árni sagði framvinduna sorglega og að hún væri komin í kæruferli fyrir dómstólum. Ekki fæst þó niðurstaða tímanlega til að hlífa vatnasvæðinu við netunum 2019.

„Málið er þannig vaxið,“ sagði Árni, „að netaupptaka var samþykkt 88 gegn 65 ef ég man tölurnar rétt. Síðan hafa nokkir netaveiðibændur kært þessa niðurstöðu til Fiskistofu og Fiskistofa hefur nú dæmt þeim í hag. Fiskistofa gaf sér nokkra mánuði til að meta löng mótmælabréf sem bárust. Þó stendur skrifað að veiðifélögin eru æðsta valdið þegar kemur að umsýslu vatnasvæða.

Forsendurnar sem menn gáfu sér voru að í samþykktum  Veiðifélags Árnesinga stendur að fyrir hverri jörð mætti veiða á stöng „eða“ í net, en að þeir væru óbundnir vegna orðalags þrátt fyrir að fundurinn hafi greitt atkvæði með því að veiða á stöng en ekki í net. Lögmenn okkar eru að sjálfsögðu ósammála þessari túlkun, en þar sem Fiskistofa hefur talað, þá hafa lögmennirnir hvatt mig til að fara í mál við þá sem kærðu niðurstöðu fundarins. Við sem erum fyrir stangaveiðina teljum öll líkindi með því að við vinnum sigur í Héraði. Þá er spurning um áfrýjun, en hvernig sem þetta fer fyrir dómi þá er komin upp sú staða að það verður að ná fram niðurstöðu. Þetta var átakafundur í fyrra og netabændur allt annað en sáttir, en það vita það allir að ef dómur fellur gegn þeim þá verður á einhvern hátt að bæta þeim skaðann þannig að menn hverfi frá borði eins sáttir og möguleiki er á,“ sagði Árni og taldi að Hérðasdómur myndi skila niðurstöðu seint í sumar eða um haustið. Ef að einhverjum hlutaðeigandi þykir nauðsynlegt að þá áfrýja þeir  til Landsdóms eða Hæstaréttar, þá mætti búast við niðurstöðu síðla vetrar. Ef að dómur fellur með stangaveiðihópnum, þá myndu netin hugsanlega ekki fara niður sumarið 2020. En niður fara þau í sumar.

Ásgarður, Björn Roth, Árni Baldursson
Myndlistarmaðurinn Björn Roth var nýlega í Ásgarði og var fljótur að setja í fisk. Mynd Árni Baldursson.

Árni heldur áfram og segir frá draumi sínum og fjölmörgum fleiri í héraðinu að byggja þetta víðfeðma veiðisvæði uppá nýtt, en fyrrum hafi verið miklu mun meira af laxi heldur en seinni árin. „Þarna er fullt af svæðum, lækjum og hliðarám sem áður voru full af laxi með fínum hrygningar- og búsvæðum, Skipalækur, Andalækur, Fullsæll, Tungulækur , Brúará, Hagaós, Hamrasvæðið í Brúará, þarna var alls staðar mikið af laxi. Nú sést varla lax á sumum af þessum svæðum og á öðrum er mikill samdráttur,“ sagði Árni og hann hélt áfram:

„Netin verða að fara upp, svo einfalt er það. Þetta eru sautján aðilar í félagi sem telur á þriðja hundrað aðila og þeir veiða 60 prósent af öllum laxinum. Bergvatnsfólkið leggur til 5 milljónir króna til rekstrar á veiðifélaginu á meðan netaveiðibændur leggja ekki til  krónu, og ekkert framlag á móti þessari gríðarlegu veiði til fiskiræktar og uppbyggingu á svæðinu. Í þessu er ekkert réttlæti og á sama tíma eru ýmist hóflegir kvótar, sleppiskylda á stórlaxi eða almennt veitt og sleppt á stangaveiðisvæðunum.

Þá er það sem heitir nýtingaráætlun sem að Fiskistofa, samkvæmt lögum, vill  að við skilum fyrir stangaveiðisvæðin. Þar ber okkur að gera grein fyrir því hvernig við ætlum að nýta hvert svæði nokkur ár fram í tíman, hvað eigi að drepa mikið, hvað eigi að sleppa miklu, hvernig til standi að standa að ræktun og uppbyggingu og svo framvegis.

Lax.
Fallegur lax. Sotnum hefur hnignað í Rangárþingi, en netaveiðarnar halda skefjalaust áfram. Myndin er frá Fishpartner.

Netabændur  sleppa alveg við þessar kvaðir, skila engri nýtingaráætlun og veiða eins og þeim sýnist. Hins vegar er öllum skylt að skila inn veiðibókum og lögum samkvæmt eru þær skýrslur opinber gögn sem allir eiga að hafa fullan aðgang að. Samt sem áður bregður svo við að á sama tíma og almenningur og hver sem er getur fengið að skoða veiðibækur af stangaveiðisvæðum, er engum hleypt í veiðiskýrslur netabænda.“ Þarna finnst mér að Fiskistofa hafi stórlega brugðist og ekki gætt jafnréttis bæði varðandi nýtingaráætlun / veiðistjórnun og aðgang að veiðiskýrslum.“

En hvernig stenst þetta skoðun sem Árni telur upp? Hvers vegna eru netabændur stikkfrí frá öllum sem að lýtur að stangaveiðibændum?

Árni segir: „Þetta hefur bara alltaf verið svona. Kominn eins og einhver einkennilegur hefðarréttur sem kveður á um að ekki megi hrófla við netaveiðinni. Lengi hefur stjórn VÁ verið netaveiðistjórn þar sem netabændur hafa ráðið því sem þeir hafa viljað og engum hugnast að skerða rétt þeirra. Enn eimir af þessum þankgangi eins og sjá má af því að þrátt fyrir allt kusu 65 gegn því að taka upp netin þó að um aðeins 17 aðila sé að ræða. Það gerir tengslanetið og hefðin. En þessu verður að breyta, annars geta menn gleymt því að byggja upp þetta gríðarlega fjölbreytta og magnaða vatnakerfi aftur upp á nýjan leik.“