Cezary með einn af boltafiskum gærkvöldsins.

Mikið er af stórum urriða í Þjóðgarðinum á Þingvöllum um þessar mundir og er fiskurinn farinn að ganga óvenjulega snemma í Öxará.

„Ég var í gærkvöldi og fékk níu stykki, alla 70 til 88 cm utan einn sem var yfir 90 cm. Það er mjög mikið líf núna og fiskurinn er farinn að færa sig að Öxará óvenjulega snemma. Ég kíkti á ána og það var mikið af fiski við brúna. Þjóðgarðurinn er alltaf bestur, frábær staður og opinn öllum á hóflegu verði. Ég verð þó að segja að ég er enn að sjá horaða og ljóta fiska innan um. Fjórir af þessum níu voru svoleiðis, meðal annars sá sem var 90 plús. Hann var ekkert nema haus og sporður. Grindhoraður og ljótur. Og það er engin bleikja. Sést ekki,“ sagði Cezary Fijalkowski í samtali við VoV í dag.

Aðspurður sagði Cezary að hann notaði alltaf tvíhendu við urriðann á Þingvöllum, „alvöru byssu í stóra fiska,“ sagði hann, 14 feta Sage X, Rio Scandi Versi tip og 13f intermediate leader, taumur 043 fluocarbon 25 punda, „fer aldrei undir 040 í taumnum. Flugurnar eru Parrot straumflugurnar,“ sagði Cezary. Þetta eru miklar græjur, enda miklir fiskar sem hafa endalaust pláss til að athafna sig