Settu í nokkra í Kjósinni

Fyrsti laxinn kom úr Laxá í Kjós í gær, falleg 82 cm hrygna úr Klingaberg. Mynd frá Hreggnasa.

Veiði hófst í Laxá í Kjós á laugardaginn. VoV hafði ekki ök á heimsókn á svæðið, en Haraldur Eiríksson sölustjóri leigutakans Hreggnasa sendi okkur skýrslu í morgun. Það var mjög róleg opnun eins og reyndar mátti reikna með, en menn settu þó í laxa.

„Það var opnað með fjórum stöngum um morguninn s.l. laugardag og skilyrði voru afleit, glaðasólskin og um hádegi var hitinn kominn í 23 gráður. Þó náðist að setja í tvo væna laxa fyrsta daginn, en báðir sluppu eftir hörku glímur. Í gær kom svo fyrsti laxinn á land, tók svarta Frances í Klingeberg og var 82 cm. Seinna var síðan sett í annan á sama veiðistað, en sá slapp. Við erum að horfa upp á góða laxgengd en laxinn tekur afleitlega í þessu vatnsleysi og hita. Það sem vantar hér er ærleg rigning, en það hefur varla komið dropi úr lofti síðan 10.mai,“ sagði Haraldur í skeyti sínu.

Þess má geta að sama dag var Laxá í Leirársveit opnuð og þar urðu menn ekki varir í opnun. Sáu að vísu til nokkurra laxa í djúpum pytti á ósasvæðinu. Sama vandamálið þar og í Kjós, hrun í vatnsbúskap og óhagstætt veðurfar til lengri tíma.

Þá heyrðum við í veiðimanni sem var í Straumunum í gær, en svæðið opnaði samhliða Norðurá, en Straumarnir eru þar sem sameiginlegur ós Norðurár og Gljúfurá mætir Hvítá. Viðkomandi, Baldur Ólafur Svavarsson, sagði okkur að lítið væri að frétta af svæðinu, ekkret hjá sér og félögum hans og aðeins sex laxar færðir til bókar frá opnun. „Hér sjást lítil eða engin skil við jökulvatnið og hreinlega spurning hvar laxinn heldur sig við þessar aðstæður. Það er a.m.k. ekki hér á hefðbundnum stað í Straumunum,“ skaut Baldur inn í.“