Veitt í Flekkudalsá. Myndin er aðsend frá SVFR.

VoV greindi frá því þann 25.7 síðast liðinn að SVFR hafi verið með besta tilboðið í Flekkudalsá að mati landeigenda. Og að félagið myndi að öllum líkindum landa ánni. Í síðustu viku var síðan skrifað undir.

Flekkudalsá er við Breiðafjörð og afar eftirsótt og skemmtileg laxveiðiá í einstaklega fögru umhverfi. Við greindum frá því á dögunum að 5-7 tilboð hefðu borist en aðeins tvö komið til greina. Fish Tails hefðu boðið 10 milljónir í einhverskonar frávikstilboði, en SVFR 9 milljónir án frávika. Frá upphafi var tilboð SVFR talið líklegra og nú hefur það gengið eftir sem útlit var fyrir.

Arnór Gísli Ólafsson kastar í Torfunefsfoss í Flekkudalsá. Veiðistaðurinn Fornistrengur í baksýn – Mynd Einar Falur Ingólfsson

Nú segja SVFR í fréttatilkynningu:  „Samstarfssamningur um vatnasvæði Flekkudalsár milli Veiðifélags Fellsstrandar og Stangaveiðifélags Reykjavíkur var undirritaður á miðvikudaginn (í síðustu viku). Með samningnum hefur SVFR tryggt sér eina eftirsóknarverðustu sjálfsmennskuá á Vesturlandi. „Flekkan er frábær laxveiðiá og fellur mjög vel að þörfum félagsmanna SVFR. Hún er allt í senn; frábær laxveiðiá, sérlega falleg og tilkomumikil og fjölskylduvæn. Samstarfssamningurinn tekur ennfremur mið af þeim aðstæðum sem nú eru uppi og er hagfelldur fyrir báða aðila eins og allir samningar eiga að vera, “ segir Jón Þór Ólason, formaður SVFR. „Við leggjum áherslu á gott samstarf við landeigendur, enda teljum við ótvírætt að hagsmunir leigusala og leigutaka fari saman.“ Flekkudalsá er þriggja stanga, 20 km löng dragá, sem á efstu upptök sín á hálendinu í Klofningsfjallgarði. Hún fellur til sjávar í Hvammsfjörð vestan við bæinn Ytra Fell á Fellsströnd eftir að hafa runnið frá upptökum sínum í gegnum stórbrotið umhverfi í skógi vöxnum Flekkudal. Er það mat margra að Flekkan sé ein fallegasta laxveiðiá á Íslandi. Nær vatnasvæðið yfir Flekkudalsá, Kjarlaksstaðaá og Tunguá. „Flekkan á sér marga aðdáendur og við hlökkum til að gefa félagsmönnum SVFR kost á að veiða í henni. Fastagesti árinnar bjóðum við að sjálfsögðu velkomna í félagið,“ segir Jón Þór.

Víst er allt satt og rétt sem Jón segir í lýsingu sinni á ánni, en VoV þekkir til nokkurra sem þar hafa veitt um árabil. Fáar fréttir hafa borist af ánni, hún er t.d. ekki á vikutölulista angling.is og þeir sem veitt hafa í ánni verjast allra frétta. Þar hafa sömu hópar verið nánast í áskrift af dögum sínum og fáir utan þess hóps fengið að kynnast ánni. Nú gæti áin tekið á móti einhverjum hópi nýrra gesta, því hjá SVFR hafa félagsmenn forgang að veiðileyfum.