Laxá í Dölum við Brúarstrenginn. Afar lítið vatn í ánni.

Það er harðlífi á bökkum flestra laxveiðiáa á landinu, þ.e.a.s. frá vestanverðu Norðurlandi og niður að Suðurlandi. Einstaka undantekningar, en ekki margar. Það er vatnsleysið og minna af fiski sem hrjáir. Það er þó hægt að kroppa upp fiska, eins og þeir sýndu sem nýverið luku veiðum í Laxá í Dölum.

Meðal leiðsögumanna var leigutakinn Jón Þór Júlíusson og landaði hollið hans 24 löxum, allt að 98 cm, og missti að auki slatta. Það verður að teljast býsna gott miðað við allt sem á undan er gengið. En hvernig báru menn sig að? „Mest vorum við með silungaflugur, púpur, mjög smáar. Langa tauma og læddumst,. Það kom mér reyndar á óvart hvað mikið er gengið í ána af laxi miðað við vatnsstöðuna. Ég held að ef að við fáum almennilegar haustrigningar gæti veiðin rokið upp í 6-700 laxa. Einn sem ég þekki benti á að fyrir nokkrum árum stóð áin í 100 löxum um verslunarmannahelgi, fékk svo haustrigningar og endaði með þúsund laxa. Best að sjá bara hvað setur,“ sagði Jón Þór. Annað sem mætti bæta við, er að velja veiðistaði og annað hvort byrja í þeim í býtið á morgnana….og síðan geyma þá fram í ljósaskipti. Ekki snerta við þeim fyrr.