Það er fleira fiskur en lax!

Heldur betur pattaraleg bleikja úr Úlfljótsvatni. Myndinni rændum við af FB síðu Ásgeirs Ólafssonar.

Það er sem betur fer fleira fiskur en lax. Á meðan helmingurinn af laxveiðiánum líða fyrir vatnsskort sem hamlar göngum er sillungsveiði algerlega að blómstra. Sama hvort talað sé um staðbundinn urriða eða bleikju, staðbundna sem sjógengna.

Magnaður urriði veiddur í Villingavatnsárósi í Þingvallavatni nú um helgina. Myndinni rændum við af FB síðu Fish Partner sem er leigutaki svæðisins.

Það er t.d. enn að veiðast vel af urriða í Þingvallavatni, ekki bara á hinum þekktu ION svæðum heldur líka á svæðum Fishpartner, t.d. skruppu menn um helgina og lönduðu sjö á fjórum tímum í Villingavatnsárósi og voru þeir uppí ríflega 80 cm. Þá hefur bleikjan verið að gefa sig víða um vatn og í Úlfljótsvatni líka, sbr mynd sem við stálum af FB síðu Ásgeirs Ólafsson og eins og sjá má þá lifa þessir fiskar við vellystingar.

Vigfús Orrason sagði okkur síðan um helgina að sjobleikja væri fyrir nokkru farin að ganga í Fljótaá í Fljótum sem hefur nokkra hefð fyrir því að sjóbleikjan komi snemma. Í ánni er einnig staðbundinn stofn. Áin er lítið sótt á þessum tíma þó, en þegar skroppið hefur verið þá hafa aflatölur hlaupið á tugum þó svo að ekki hafi verið staðið við allan daginn. Sjóbleikjan á það til að vera væn í Fljótaá, sérstaklega sú sem gengur snemma.

Sjóbleikja hefur einnig sýnt sig víðar, Sigurður Staples, umsjónarmaður Strengja hefur t.d. verið að tína þær upp á ósasvæði Breiðdalsá og einnig í Fögruhlíðarósi, sem er í norðanverðum Héraðsflóa. Þá sást haft eftir Matthíasi Þór Hákonarsyni að sjóbleikjan hafi einnig verið að gefa sig í Lónsá sem er í Þistilfirði skammt norðan Þórshafnar. Og áður höfum við birt frásögn Péturs Péturssonar af snemmgenginni sjóbleikju á silungasvæði Vatnsdalsár, margar vænar, 50 til 60 cm.

Eflaust mætti margt annað tína til, eins og t.d. að við höfum haft spurnir af fínni veiði á Skagaheiði sem og hinu megin á landinu, í Hlíðarvatni í Selvogi. Þetta virðist bara allt vera að detta í gang.