Urriðinn – birtingurinn: Flugurnar og aðferðarfræðin

Enn einn stórfiskurinn úr Þingvallavatni. Mynd Nils Folmer.

Á dögunum var rætt við Valgarð Ragnarsson um val á sjóbirtingsflugum og aðferðarfræðina. Nú verður rætt við Nils Folmers Jörgensen sem hefur víðtæka reynslu af urriðaveiði í vötnunum, sérstaklega Þingvallavatni.

Við birtum þetta núna og hnýtum spjallinu við Valgarð  aftan við, enda má með sanni segja að sjóbirtingsvertíðin hafi byrjað 1. apríl og endað þann 3. apríl. Síðan kom hret sem nú er lokið.

Önnur heimsókn á flugubar Veiðiflugna á Langholtsvegi, að þessu sinni með Nils Folmer Jörgensen, leiddi af sér samræður um hvernig eigi að standa að því að veiða staðbundinn urriða í vötnum. Tími urriðans fer nú í hönd nú þegar hretinu er lokið og vorið væntanlega komið til að vera.

Hér má sjá nokkrar af þeim flugum sem Nils nefnir og tíndi upp úr flugubar Veiðiflugna. Þarna er Olive Ghost í öndvegi og meðal annarra þurra nafnlausa CDC flugan og Caddis þurr. Mynd Nils Folmer Jörgensen.

Nils segir: „Já, að velja réttu flugurnar í boxið. Þegar ég tala um Þingvallavatn miða ég við ION svæðin, en ég hef veitt um allt vatnið og þessar upplýsingar geta átt við um urriðaveiðar vítt og breytt um landið.

-Já Þingvallavatn. Það fer svolítið eftir því á hvaða svæðum þú ert. En til að einfalda málið, þá skipti ég þessu upp í ION svæðin, straumflugur, púpur og þurrflugur, annars vegar, og önnur svæði í vatninu hins vegar, þar eru straumflugur málið.

Á ION svæðunum nýtir urriðinn sér heita vatnið sem kemur undan hrauninu, hann hefur verið að éta og safna kröftum. Þeir eru stappaðir af murtu eftir að hafa veitt í köldu vatninu allan veturinn. Það má segja að þeir stóru þarna liggi á meltunni. Þess vegna virka síður stóru flugurnar framan af á ION. Smærri flugur vekja áhuga þeirra og þegar líður á vorið eru þeir mikið hangandi í og rétt undir yfirborðinu og stórar flugur styggja þá í einum grænum. Ef að vindur blæs þá geta straumflugur virkað og þá er engin betri heldur en flugan mín Olive Ghost. Á öðrum svæðum í vatninu eru straumflugurnar bestar, þá er maður meira og minna að leita að fiski sem gengur með landinu í leit að æti. Það er samt aldrei einhlýtt, það fer eftir veðri, dýpt og hitastigi, hvernig maður velur fluguna og setur hana fyrir fiskinn.

Tröllið sem Nils nefnir í textanum, 101×64 cm og tók agnarsmáa þurra CDC.

Þurrflugurnar og púpurnar eiga að vera í dökkum litum með tengingu í brúnna liti, svarta , grá eða ólívugræna. Uppáhöldin mín eru þurrar Black Gnat og Caddis, Phesant tail púpa, Blóðormur og Langskeggur í púpum. Nota þær aðallega óþyngdar í stærðum 12 til 16. Stundum þarf maður þó að hafa þyngdar púpur.

Dag einn útbjó ég nafnlausa CDC þurra í Hopper stíl og ég hef veitt ógrynni urriða á hana. Meðal annars hrygnu sem var 101 cm og 64 cm í ummál, áætluð 16 til 18 kílógrömm, það er minn stærsti fiskur úr vatninu til þessa dags.

Þegar líður að lokum maí má sjá hundruð urriða sveimandi, en þeir sýna þá flugunum engan áhuga. Sama hvað ég reyni. Þá hefur mér stundum tekist að vekja þá með því að kasta út þurrflugu í anda þeirra sem menn nota í vötnunum á Bretlandseyjum, einnig hafa stórar og miklar maura-eftirlíkingar virkað, sérstaklega í appelsínugulum litum.

En það er sama hvernig á málin er litið, ekkert kemst fram hjá Olive Ghost, flugunni minni, sem er búin að vera ein af allra bestu urriða- og sjóbirtingsflugunum síðustu árin. Ég hnýtti þessa flugu fyrst árið 2008, í framhaldi af því að fylgjast með lífi og tilveru hornsíla í Þingvallavatni.

Olive Ghost er með UV legg, hvort heldur er svart eða silfurlitaður. Vængurinn er í zonker-stíl og skottið er appelsínugult eða ólívugrænt og skeggið er mjúkt. Ég hnýti fluguna með kúpu eða tungsten keilu. Eða bara UV  og skógarhana. Black Ghost er líka frábær fluga, bein eftirlíking af æti urriðans og til að ljúka þessu, aldrei fara neitt án þess að hafa svartan Wooly Bugger í boxinu.“

Húseyjarkvísl, Valgarður Ragnarsson
Valgarður Ragnarsson með flottan birting úr Kvíslinni í gær.

Og birtingurinn…..

Við ætlum að renna aftur stuttu spjalli við Valgarð Ragnarsson, um flugnaval og aðferðarfræði við birtinginn að vori. Við vorum ekki með rétta myndefnið á dögunum og auk þess dó vertíðin aðeins tæpum þremur sólarhringum eftir að hún hófst, en hefur verið að rífa sig í gang að undanförnu eftir að það fór að hlýna aftur.

VoV sat að spjalli á dögunum með Valgarði Ragnarssyni, stórveiðimanni og leigutaka Húseyjarkvíslar sem er ein sterkasta sjóbirtingsá landsins. Talið barst að flugum og aðferðum. Á meðan skimaði hann yfir flugubarinn í Veiðiflugum og tíndi út nokkrar sem hann telur ómissandi í boxið. Og ekki aðeins í vorbirtinginn, þessar flugur má allar heimfæra uppá staðbundinn urriða og sjóbleikju þegar líður á sumar, að ekki sé talað um þegar birtingurinn kemur aftur í árnar upp úr miðju sumri og fram eftir hausti.

Hér getur að líta flestar þeirra flugna sem Valgarður Ragnarsson tíndi upp úr flugubar Veiðiflugna, t.d. „trailer“-útgáfu af Iðu, hvítan Nobbler, Olive Ghost, Gollann, Flæðarmús, Copper John, Phesant tail og fleiri. Mynd Nils Folmer Jörgensen.

Hvaða straumflugur notar þú mest?

„Það er mjög einföld formúla í þessu. Það eru bara fáar flugur sem að ég nota níutíu prósent af tímanum. Mikið notuð fluga er Black Ghost, sunburst útgáfan, en afbrigði af henni, Olive Ghost er ein af mínum helstu „go to“ flugum. Óhemju sterk fluga sem ég tek fram yfir hina hefðbundnari Black Ghost. Þá nota ég mikið Gollann, flugu sem Ingólfur Davíð Sigurðsson hnýtti fyrstur fyrir mörgum árum. Hún er með magnaða litasamsetningu og gúmmílöppum sem stinga í stúf við litina. Þá verð ég að nefna svokallaða „trailer“útgáfu af gömlu góðu Iðunni sem er gamalgróin fluga eftir Kristján heitinn Gíslason. Þessar „trailer“ flugur eru gríðarlega magnaðar og hafa verið að sækja í sig veðrið síðustu árin. Síðan eru þetta örfáar gamlar klassískar, Nobblerar, sérstaklega hvítur og Flæðarmúsin.“

Og hvernig veiðir þú með straumflugunum?

„Hægt, fyrst og fremst mjög hægt. Engin læti. Eins hægt og ég get án þess að flugan fari að festast í botninum. Þetta gildir hvort heldur ég nota flotlínur eða sökklínur. Með flotlínu veiði ég jafnvel hægar en með sökkvandi línum.“

Nú hefur það færst mjög í vöxt að veiða sjóbirtinginn á púpur, ekki síst í smærri ám þar sem fiskurinn bunkar sig á afmörkuðum svæðum, hvernig snýr sá veiðiskapur að þér?

Húseyjarkvísl, Valgarður Ragnarsson
Valgarður leigutaki með einn flottan úr Húseyjarkvísl.

„Ég hef víða veitt en hin seinni ár hef ég aðallega verið í Húseyjarkvísl. Þar höfum við verið að bæta í með púpurnar. Yfirburðapúpa þar er Copper John og Phesant tail er einnig mjög sterk. Þá má nefna Beyki sem getur verið afar sterk.“

Og hvernig veiðir þú með púpunum?

„Ég veiði með þeim bæði andstreymis með tökuvara og læt þær reka. Hvoru tveggja eru sterkar aðferðir. Af því að ég nefndi Húseyjarkvísl sem minn helsta stað síðustu árin, þá kenndi púpuveiðin okkur mikið. Til dæmis það, að venjan var alltaf að byrja á vorin með straumflugunum og það var það sem gekk. Og þegar leið á apríl fór að draga úr og þá héldu menn hreinlega að fiskurinn væri einfaldlega farinn. En svo fórum við að reyna púpur og þá kom í ljós að birtingurinn er miklu lengur í ánum en við héldum lengi vel. Og hann var að taka púpurnar þó hann sýndi straumflugunum þá lítinn áhuga. Þetta leiddi af sér að við vorum að fá fína veiði langt fram eftir maí.“

Hvernig velur þú þar fyrir utan, hvort þú setur undir straumflugu eða púpu?

„Straumflugu pottþétt alltaf í miklu vatni, þungu vatni, kannski smá skoluðu vatni. En um leið og vatnið er orðið tært þá er kominn tíma á púpurnar.“

Hvað með tauma?

„Með sökklínum, eða sökktaumum, þá pæli ég ekki mikið í taumum. Þar er hægt að hnýta stuttan nísterkan taum framan á sökktauminn og það er verkfærið með straumflugunum. Þetta breytist þó þegar tími púpunnar er kominn. Ég vil helst ekki vera með nettari taum en tólf pund þegar ég er með púpu. Það er einfaldlega vegna þess að við erum að veiða svo stóra fiska.“