Langá á Mýrum er ein þeirra laxveiðiáa þar sem enn má finna glufur að komast í veiði á komandi sumri. Mynd Jón Eyfjörð.

 

Síðustu vikur hefur mátt ætla að varla sé nothæft laxveiðileyfi að fá, svo mjög sé sótt í helstu bitana. Helst að skilja að allir veiðileyfasalar séu meira og minna uppseldir. Það er nú samt ekki alveg nákvæmt, enn finnast spennandi leyfi.

Reglulega auglýsir Lax-á spennandi leyfi á FB og hjá Þresti í Strengjum má sja spennandi glufur í bókunum í Jöklu og Breiðdalsá. Hrútan hins vegar með biðlista. Þá lúrir Ástþór Jóhannsson í Dal enn á nokkrum góðum dögum í perlunni Straumfjarðará svo að dæmi séu tekin. En SVFR er oft besta mælistikan, allt er þar opin bók, bæði lausir dagar og verðlag. Þar er nú úthlutun og försölu lokið og við spurðum Ara Hermóð Jafetsson sölustjóra hjá SVFR hver staðan væri:

„það er ekki teljanlegur samdráttur á umsóknum núna hjá okkur. Elliðaárnar eins og fyrr mjög vel sóttar og þessi minni ársvæði hjá okkur, eins og Andakílsá, Fáskrúð, Gljúfurá, Gufudalsá, Hítará og Haukadalsá. Einnig nokkuð sótt um í Langá og aukning þar frá því í fyrra. Úthlutun er á lokametrunum og kemur því í ljós fljótlega í næstu viku hvað er laust. En svona fljótt á litið þá er eitthvað laust, en ekki mikið. En við erum ekki uppseldir, en langt komnir með það að klára lagerinn.“

Af þessu má sjá að þó að eflaust séu einhverjir „uppseldir“ þá er enn möguleiki að finna spennandi laxveiðileyfi. Myndin að ofan er frá Langá. Myndina tók Jón Eyfjörð.