Methagnaður boðaður hjá SVFR

Elliðaárnar, Heimir Óskarsson
Lax á lofti í Elliðaánum. Mynd Heimir Óskarsson.

Aðalfundur SVFR verður haldinn í Rafstöðvarheimilinu nk mánudag klukkan 18. Formaðurinn Jón Þór Ólason gefur kost á sér til áframhaldandi setu og mótframboð voru engin. Þá liggur fyrir að á fundinum verður greint frá methagnaði félagsins sem hljóta að teljast tíðindi miðað við árferðið síðustu árin.

Jón Þór Ólafsson.
Jón Þór Ólason formaður SVFR.. Myndina fundum við á FB síðu Jóns.

Þetta staðfesti Jón Þór í stuttu spjalli og sagði þrotlausa vinnu stjórnar og fleiri eiga þar stærstan hlut að máli. Síðustu árin hefði verið umsnúningur í því hvernig félagið hefur verið rekið og á hvaða forsendum. Benti Jón Þór á að félagið hefði komið sér út úr óhagstæðum samningum og þó að félagið hafi tekið þátt í fjölmörgum útboðum í formannstíð sinni, hefði félagið aldrei verið með hæsta tilboð. „Samt höfum við bætt við þremur svæðum. Sumir hafa séð festuna og öryggið í því að semja við SVFR. Við spilum leikinn á öðrum forsendum en aðrir, auðvitað eru dýrustu leyfin okkar ansi dýr, en yfir línuna er stefnan að félagsmenn eigi kost á boðlegum veiðileyfum á viðráðanlegu verði. Hjá okkur sérðu ekki þessar hækkanir sem frést hefur af hjá sumum veiðileyfasölum. Hjá okkur er aðeins umsamin vísitöluhækkun. Þetta hefur verið viðvarandi hjá okkur síðustu árin og veiðifólk kann greinilega að meta það, því veruleg fjölgun hefur verið í félaginu, alls um 500 nýir félagar, og eftirspurnin eftir veiðileyfum mikil og vaxandi,“ sagði Jón Þór.

Sem fyrr segir er ekkert mótframboð gegn Jóni í formannskjörinu, en spurning hvernig fer víðar í stjórninni. Karl Lúðvíksson (Kalli Lú) býður sig fram í fulltrúaráðið og sitjandi stjórnarmennirnir Halldór Jörgenson, Trausti Hafliðason og Hrannar Pétursson gefa allir kost á sér til endurkjörs. Aðeins eitt nýtt andlit er í boði til meðstjórnanda, Aðalheiður St. Eiríksdóttir.