Flott byrjun í Ytri Rangá

Jóhannes Hinriksson t.v. og veiðigestur sem okkur vantar nafnið á, með fallega hrygnu úr Ytri Rangá í morgun.

Níu laxar veiddust í morgun er Ytri Rangá var opnuð og um miðja seinni vakt voru þeir orðnir alls 15 talsins og talsvert líf víða á svæðinu. Þetta verður að teljast fín opnun og sannast hið fornkveðna enn á ný í sumarbyrjun, að þar sem er vatn, þar er lax. Auðvitað er lax líka í vatnslitlu ánum, en margfalt erfiðara við þá að eiga.

Jóhannes Hinriksson umsjónarmaður Ytri Rangár staðfesti þessar tölur í skeyti til VoV nú í kvöld. Sagði hann menn hæst ánægða með árangur dagsins og að skilyrði hefðu verið góð, sól og hægur vindur, sem löngum hafa verið talin góð skilyrði í Rangárþingi vestra. Nær allt er þetta tveggja ára lax, en fáeinir smálaxar eru einnig í aflanum.