Við vorum með athyglisverða statistíkufrétt frá aflasamsetningu í Vatnsá litlu í Heiðardal og hvernig stórlaxasumarið speglaðist í jafnvel nettustu laxveiðiá sem er að upplagi smálaxaá. Við gerðum okkur far um að taka samskonar mola uppúr rafrænu veiðibók Vatnsdalsár…

Sá stærsti í sumar var 110 cm úr Línufljóti - Mynd af FB síðu Vatnsdalsár
Sá stærsti í sumar var 110 cm úr Línufljóti – Mynd af FB síðu Vatnsdalsár

…og útkoman var vægast sagt mögnuð. Vissulega var sumaraflinn talsvert minni heldur en saman fara tveir sterkir árgangar, þ.e.a.s. bæði smálax og stórlax. En stórlaxinn var það sterkur að heildarveiði sumarsins er fyllilega viðunandi og af þessum sökum er meðalþyngdin há. En hver var útkoman er varðar stærstu laxana. Vissulega hefur mikið verið látið með Laxá í Aðaldal í sumar og það með réttu, en það sem við grófum uppúr rafrænu bók Vatnsdalsár sýnir og sannar að stórfiskavonin var heldur betur alvöru.

Alls veiddust 853 laxar í Vatnsdalsá á liðnu sumri. Meðallengd var 77,45 cm sem að þyngdarkvarði Vmst býður uppá að sé 5,17 kg að jafnaði, meðalþyngdin hafi því verið ríflega 10 pund séu gömlu góðu íslensku pundin notuð. Sem sagt, stórlaxasumar.

Ljósmyndarinn Golli með 102 cm lax úr Vatnsdalsá - Mynd Einar Falur Ingólfsson
Ljósmyndarinn Golli með 102 cm lax úr Vatnsdalsá – Mynd Einar Falur Ingólfsson

Og að þeim stærstu: Alls veiddust 27 laxar sem mældir voru á bilinu 100 til 110 cm, eða 20 pund og stærri miðað við sama kvarða. 8 voru 100 cm, 6 voru 101 cm, 3 voru 102 cm, 1 var 103 cm, 2 voru 104 cm, 2 voru 105 cm, 1 var 106 cm, 1 var 107 cm, 1 var 108 cm, 1 var 109 cm og 1 var 110 cm.

Þá er það óumdeilt, að laxar milli 90 og 99 cm eru sannkallaðir stórlaxar líka og allir vita að í efri mörkunum leynast laxar sem að uppfylla 20 punda múrinn. Alls veiddust 106 laxar sem mældir voru á bilinu 90 til 99 cm. 18 af þeim voru mældir 97 til 99 cm, eða tuttugu punda kandídatar.

Laxar á bilinu 90 og upp í 110 cm voru því alls 133 í Vatnsdalsá og því óhætt að segja að margur hafi verið í ævintýralegum uppákomum í ánni.