Þingvallavatn, Fish Partner
Flott mynd af glímu við 17 pundara í Þingvallavatni. Myndin er fengin að láni frá Fish Partner.

Það er víða verið að draga væna urriða á land, bæði norðan lands og sunnan. Veðrið oft að setja strik í reikninginn, en menn reikna með því í jöfnunni. Skoðum aðeins puncta héðan og þaðan….

Matthías Þór, Lónsá
Flottur birtingur af ósasvæði Lónsár. Myndin er fengin hjá Matthíasi Þór Hákonarsyni.

Eins og sjá má af myndavalinu er ár fyrir norðan ekki síður í góðum gír. Matthías Þór Hákonarson, leigutaki Mýrarkvíslar er t.d. með frásögn af erlendum viðskiptavinum hans sem fengu væna fiska bæði í Mýrarkvísl sem og ekki síður í Lónsá sem fellur til sjávar skammt frá Þórshöfn í austanverðum Þistilfirði.

Matthías Þór, Brunná
Erlendur kappi með einn vænann úr Kvíahyl í Brunná í Öxarfirði. Myndin er fengin frá Matthíasi Þór Hákonarsyni.

Þar er sterkur bleikjustofn, en sjóbirtingur heldur veiðinni gangandi á þessum árstíma. Matthías hefur einnig verið að fara til veiða með viðskiptavini í Brunná og gott ef að stærstu fiskarnir hafa ekki verið að veiðast þar. Þá hefur veiði verið afar lífleg í Litluá í Kelduhverfi.

Þingvallavatn hefur opnað með látum, en vindasöm tíð hefur samt gert mönnum erfitt fyrir af og til. Þorsteinsvík og Ölfusvatnsós (ION svæðin), Kárastaðir og Geldingavatnsárós (Fish Partner svæðin) hafa verið mjög lífleg. Nú hafa Fish Partner bætt við sig Kaldárhöfða, en þar var fyrrum besta urriðasvæðið í vatninu, áður en að lokað var með virkjun niður í Efra Sog, þar sem urriðinn hrygndi. Urriði hefur mjög verið að eflast í vatninu hin síðari á reins og alkunna er og hrygning hefur aukist við Kaldárhöfða síðustu ár eftir að borið var heppilegt botnefni þar fyrir nokkrum árum. Nú verður fróðlegt að frétta hvernig veiðimönnum reiðir af við Kaldárhöfða, sem er einnig með veiðisvæði í norðurenda Úlfljótsvatns.

Tungulækur, sjóbirtingur, Ingólfur Helgason
Einn vænn gefur ljósmyndara við Tungulæk illt auga! Mynd er frá Ingólfi Helgasyni.

Enn er mikill fiskur á sjóbirtingsslóðum í Vestur Skaftafellssýslu, en eins og getið var um hér ofar, þá hefur veður gert mönnum gramt í geði á köflum. Miklir vindar af og til og síðan hafa komið hlaup vegna rigninga með tilheyrandi. Þó má nefna, að Eldvatn hefur verið að koma til að undanförnu. Það er kaldari á en aðrar í héraðinu og tekur því oftast seinna við sér. Jón Hrafn Kalrsson, einn leigutaka árinnar, sagði okkur þó að í byrjun hefði fiskur verið mjög dreifður og erfitt að finna hann, nema þá fáa fiska á vel þekktum reytum. Nú væri hins vegar kominn hreyfing á fiskinn og hann farinn “að þétta sig”, eins og Jón komst að orði. Sagði hann síðustu holl hafa verið að landa 7 til 12 fiskum og stígandi hefði verið að undanförnu