Þetta er ábyggilega endurkomulax!

Ársæll Þór Bjarnason með 94 cm lax úr Blöndu í morgun. Útlitið gefur til kynna að þessi lax hafi áður gengið í ána og hrygnt!

Veiðin í dragánum dróst saman út af aðstæðum, en Blanda hélt áfram að skila sínu, m.a. 8 löxum í morgun og þeim stærsta til þessa, 94 cm laxi, en fram að þessu voru tveir 93 cm stærstu laxarnir. Það má lesa eitt og annað útúr útliti þessa lax ef grannt er skoðað.

Í morgun var 8 löxum landað úr Blöndu, þar á meðal þessum 94 cm laxi sem myndin er af. Það var Ársæll Þór Bjarnason sem landaði laxinum. Ef myndin er skoðuð vandlega er ekki út í hött að álykta að þessi lax hafi áður gengið til hrygningar. Hann er óvenjulega dílóttur, þunnur og ábyggilega ekki jafn þungur og lengdin gfur til kynna. Þetta er ekta útlit lax sem hefur gengið í ána og hrygnt áður. Ekkert segir til um að hann hafi veiðst í fyrra, enda skiptir það ekki máli.