Stórlaxagöngurnar sterkar í ár

Af laxinum er nóg í Eystri Rangá.

Það er mat kunnugra, að stórlaxagöngur vorsins verið „sterkar“ til þessa. 80 laxar fyrstu fjóra daga opnunar Urriðafoss og átta laxa opnunarmorgun  í Blöndu auk góðra talna úr Þverá og Norðurá eru til marks um það, en Þverá og Norðurá hafa hins vegar liðið mjög fyrir nánast einstaklega erfið skilyrði.

Jón Þór Júlíusson hjá Hreggnasa sagði t.d. að síðustu daga, í stórstreyminu, hefðu laxahópar verið í Kvíslafossi í Laxá í Kjós eftir hvert einasta útfyri síðustu daga og þar á undan voru að koma inn laxar alveg frá miðjum mai, sem er óvenjusnemmt, jafnvel í Laxá. Laxar þessir hafa allir horfið á skömmum tíma, fossar og flúðir engar fyrirstöður í vatnsleysinu og umræddir laxar komnir inn allan dal. Veiði er enn ekki hafin í ánni.

Sama er með Þverá/Kjarrá. Þar voru menn að sjá laxa frá miðjum júlí, en fyrstu göngurnar virðast allar hafa horfið upp í Kjarrá. Núna er lítið af laxi í Þverá sjálfri, utan að haugur er af stórlaxi í Brennunni, þar sem áin mætir Hvítá. Það er fiskur sem hefur verið að ganga síðustu daga, því að hann er meira og minna lúsugur. „Þegar athuguð eru skilyrðin, hversu hrikalega slæm þau hafa verið til að veiða, þá myndi ég segja, og allir eru mér sammála, að stórlaxagöngurnar það sem af er, eru mjög sterkar. Ekki verri, jafnvel betri en í fyrra og hitteðfyrra. Blanda og Þjórsá finna ekki fyrir þessu vatnsleysi og kulda eins og við gerum sem erum við Þverá og Norðurá, en ef skilyrði hefðu verið betri get ég lofað að það hefðu getað orðið metopnanir á stórlaxi, svo mikið er af fiski á ferðinni,“ sagði Ingólfur Ásgeirsson í samtali við VoV í dag. Og hann bætti við að tveggja ára laxinn kæmi stórkostlega flottur úr hafi, „algjör tundurskeyti“, sagði Ingólfur.

Ljóst er að veðurfar þarf að breytast til að dragárnar taki almennilega við sér í veiði og það slakni á norðanátt og kulda, en eins og staðan er þá eru þeir fiskar sem eru að ganga ekki að raða sér við hefðbundna vorveiðistaði eins og títt er á þessum árstíma. Einar Sigúfússon, umsjónarmaður Norðurár sagði t.d. í samtali í kvöld að síðdegis í gær hefðu menn áætlað 15 laxa á Eyrinni og talið 5 í Klingenberg. En stuttu seinna voru allir farnir, gengnir upp og vitni hefðu verið að því að laxar voru að fara um stigann í Laxfossi. Á sama tíma komu menn að Kaðalstaðahyl í Þverá, einum albesta vorveiðistað árinnar, barið hann í þrjá tíma, skyggnt síða og séð ekkert, en er næstu menn komu var laxatorfa í hylnum. Það var einum landað og tyllt í annan, svo var tíminn úti. Í hléinu var kíkt í hylinn og var hann þá tómur!. Mikil hraðferð á þeim silfraða og var vatnshitinn þó lítill, aðeins 4 gráður í morgunsárið í Norðurá svo dæmi sé tekið.