Bakkaá
Fallegur lax úr Bakkaá.

Veiðileyfasalarnir hafa verið duglegir að kynna til leiks minna þekktar laxveiðiár að undanförnu. Fish Partner greinir nú frá því að félagið hafi umsjón með Bakkaá í Bakkafirði, en hún er fræg fyrir stærsta stangaveidda lax Íslands.

Bakkaá
Glímt við lax í fallegri kvörn í Bakkaá.

Gunnar Örn Pedersen eigandi Fish Partner, fishpartner.is  sendi okkur svohljóðandi skeyti: „Bakkaá í Bakkafirði er komin í almenna sölu í fyrsta sinn og sér Fish Partner um sölu veiðileyfa.

Bakkaá, Bakkaárlaxinn
Ólafur Kr Ólafsson, kenndur við Útilíf ásamt Stefáni Inga Daníelssyni með Bakkaártröllið uppstoppað.

Bakkaáin lætur ekki mikið yfir sér en hún getur geymt mjög stóra laxa. Eins og flestir vita þá veiddist stærsti stangveiddi lax á Íslandi í Bakkaá árið 1992 af Marínó Jónssyni. Laxinn var hoplax og vó hann 43 pund og var 130 cm. Laxinn var 11 ára og var á leið til sjávar eftir þriðju hrygningu.

Bakkaá
Flottur Bakkaárlax. Allar myndir eru frá fishpartner.com

Eingöngu er veitt á flugu í Bakká og mega veiðimenn taka einn lax á stöng á dag en allri bleikju er sleppt. Skráningar á afla hafa verið takmarkaðar undanfarin ár en laxgengd í ána er töluverð, enda í nágrenni við margar af bestu laxveiðiám landsins. Hafa menn gert þar góða veiði á undanförnum árum. Áin er fullkomin fluguveiðiá og þá sérstaklega fyrir hitch og yfirborðs veiði. Það verður gaman að sjá hvað þessi litla perla mun gefa þetta árið.“