Hofsá, ásamt Sunnudalsá, sýndi batamerki eftir nokkur mögur ár. Er það gott að heyra og vita því Vopnafjörðurinn hefur verið í dálítilli niðursveiflu. Árnar þar hafa verið að koma til baka samt, sérstaklega Selá, en Hofsá líka, bara hægar. Jón Magnús Sigurðsson formaður Veiðifélags Hofsár og Sunnudalsár og veiðileiðsögumaður, sendi okkur þessa samantekt um gang mála í ánni á nýliðnu sumri.

Ívar Kristjánsson, Ari Þórðarson, Hofsá
Ari Þórðarson með glæsilegan lax úr opnun Hofsár á dögunum. Myndina tók Ívar Kristjánsson.

Hér kemur svo útttekt Jóns Magnúsar: „Í Hofsá og Sunnudalsá veiddust samtals 697 laxar síðastliðið sumar sem er aukning upp á 110 laxa á milli ára.  Vatnasvæðið endaði sem 17 aflahæsta  áin á landinu.  Veiðin skiptist þannig að í Hofsá veiddust 580 laxar en í Sunnudalsá 117 laxar.  Laxinn gekk snemma upp í árnar í sumar og var veiðin góð í júlí en gaf síðan eftir í ágúst.  Getur skýringin á því m.a. verið sú að vorið var gott og hitastigið í ánum fór snemma upp.  Seiðabúskapur í ánum er góður enda  hafa ytri aðstæður verið hagfelldar undanfarin ár.  Hærri vantshiti undanfarin þrjú ár hefur sitt að segja, einkum hjá yngstu seiðunum.

Sunnudalsá, Langamelshylur
Veitt í Langamelshyl í Sunnudalsá. Mynd -hh.

Við þessa fínu úttekt Jóns Magnúsar má bæta, að margir telja megin ástæðuna fyrir niðursveiflu Hofsár, sem og Selár, hafi verið óhemju mikil flóð 2013 og 2014. Hrygningarsvæði í Hofsá þurrkuðust út á stórum svæðum, en sveiflan var ekki eins djúp í Selá vegna þess að áin er með grófari botn og meiri vörn fyrir seiði. Hamfarir þessar gerbreyttu Hofsá á löngum kafla, sérstaklega miðsvæðis þar sem miklar hrygningarstöðvar var að finna. Áin hefur síðan verið að jafna sig og festa sig í sessi, sums staðar í nýjum farvegi eða með breyttu straumlagi á gömlum stöðum. Eins og Jón Magnús skráði þá var meðalveiði í Hofsá/Sunnudalsá 1062 laxar á bilinu 2004 til 2017. Á umræddu tímabili skiptust á skin og skúrir enda hafa alltaf verið miklar sveiflur í veiði í Vopnafjarðaránum.

Ívar Kristjánsson, Ari Þórðarson, Hofsá
Ívar Kristjánsson með einn af fyrstu löxunum úr Hofsá 2018. Myndina tók Ari Þórðarson.

En ef skoðaðar eru tölur aðeins aftur til 2013, þegar fyrra hamfaraflóðið skall á, þá veiddust 1160 laxar, fín veiði, enda lentu seiði þeirra árganga í ánni ekki í flóðunum. En strax 2014, þegar seinna flóðið skall á, er komin mikil niðursveifla, aðeins 657 laxar veiddir og það átti bara eftir að versna, 2015 komu 515 laxar, 2016 492 laxar og 2017 byrjaði aðeins að rofa til aftur, 589 laxar þá. Og sem sagt 697 laxar samanlagt úr báðum ánum nú. En miðað við ártöl flóðanna, þá er það ekki fyrr en næsta og þar næsta sumar sem að menn ættu að sjá virkilega góðan viðsnúning þó að það geti tekið enn lengri tíma til að komast í toppmál fyrri ára. En tíminn mun leiða þetta allt í ljós, í millitíðinni er það bara gleðiefni að byrjaður sé viðsnúningur.

Og þó að menn finni að Hofsá sé að koma til baka þá er aukningin fyrst og fremst fólgin í því að Sunnudalsá var í fyrsta skipti veidd með nokkru álagi. Seld sér með þremur stöngum. Að vísu hófst þar ekki veiði fyrr en undir lok júlí, en áin fór vel af stað og þegar upp var staðið, þann 18.september höfðu veiðst í ánni 117 laxar eins og Jón Magnús gat um. Kunnugir segja að sé Sunnudalsá veidd með nokkru álagi geti hún gefið allt að 120 til 150 laxa í góðu ári.  Ekki þó ýkja meira því áin er bæði köld og víða erfið að ofanverðu. Áin hefur lítið verið veidd síðustu sumur, þannig voru aðeins 40 laxar skráðir úr ánni sumarið 2017.