Erfitt í Kjarrá

Sá eini úr Kjarrá í dag...það er erfitt þar þessa daganna.....

Kjarrá opnaði í dag, en menn voru efins um gæðin útaf  því að það er rosalega lítið vatn í ánni og þó að höfuðborgarbúar hafi búið við dásemdarveður, þá hefur verið norðan rok og vindkæling í Borgarfirði. Einn lax veiddist í Kjarrá í morgun, en menn sáu marga og tylltu í….en skilyrðin afar erfið eins og kunnugt er.

„Það eru hér leiðsögumenn sem hafa verið í 30 ár eða meira og þeir hafa aldrei lent í öðru eins á þessum tíma sumars. Menn hafa séð ána viðlíka vatnslitla siðsumars eftir langvarandi þurrka þegar snjóalög hafa verið uppurin, en aldrei í byrjun sumars. Það er mjög lág vatnsstaða og kuldi í norðanáttinni. Það verður að rigna og rigna vel,“ sagði Íngólfur Ásgeirsson í samtali við VoV. Samt sem áður er slatti af laxi víða í ánni, sem og í Þverá og auk þess bjargar Brennan miklu. Þar er mikið af laxi og nokkrir laxar að nást þar á land á hverri vakt.

En svo er það, að á meðan að Norðurá og Þverá líða fyrir þessi afleitu skilyrði, þá eru Urriðafoss og Blanda að skila sínu, sem sýnir að laxinn er þarna! Opnunarhollið í Blöndu var með 22 laxa á 4 stangir á 2,5 dögum, Þjórsá svipað ef ekki ögn meira. Laxinn er þarna, skilyrðin þurfa hins vegar að batna.