Líflegt í kuldanum við Blöndu

Brynjar Þór Hreggviðsson búinn að setja í vænan lax í Damminum. Myndir tók Höskuldur Birkir Erlingsson

Blanda skilaði góðum opnunarmorgni, við greindum áður frá þremur á land eftir fyrsta klukkutímann, fimm áttu eftir að bætast við auk þess nokkrir tóku en hristu sig af.

Brynjar búinn að landa fallegri hrygnu.
Sami laxinn og í síðustu frétt, Reynir M. Sigmundsson með 93 cm hrygnu, ásamt Ársæli Þór Bjarnasyni.

„Þetta voru átta á land og þrír sluppu,“ sagði Höskuldur Birkir Erlingsson tíðindamaður okkar á svæðinu og lét hann vel af. Talsvert líf var á svæðinu, en kalt og hvasst. Það er talsvert síðan að menn sáu fyrstu laxana í ánni og sagði Árni Baldursson leigutaki að það væri nokkuð klárt mál að talsvert væri gengið af laxi upp stigann við Ennisflúðir og tilhlökkunarefni væri að reyna efri svæði árinnar, fiskur gæti jafnvel verið kominn alla leið í Svartá. En veiði á efri svæðunum hefst talsvert síðar í mánuðinum.