Tólf fyrir hádegi, frábær byrjun

Leigutakarnir Harpa og Stefán, Stefán með fallegan vorlax úr Þjórsá.

Ekki verður annað sagt en að laxveiðivertíðin fari vel af stað, tólf löxum var landað í Urriðafossi í Þjórsá í morgun og all nokkrir sluppu að auki. Allt var þetta feitur og fallegur tveggja ára lax. Þjórsá er aldrei sú áin sem að súnkar niður útaf vatnsleysi!

Matthías Stefánsson tónlistarmaður með flotta hrygnu í morgun.
Gömul brýni sem engu hafa gleymt, Egill Guðjohnsen og Þórarinn Sigþórsson með glæsilega hrygnu við Urriðafoss í morgun.

„Tólf fyrir hádegi og þetta lítur afar vel út,“ sagði Stefán Sigurðsson leigutaki Urriðafoss og fleiri svæða í Þjórsá í samtali. Þetta er frábær byrjun, en spurning hvernig fer í öðrum ám, en þær næstu opna á þriðjudaginn, Norðurá og Þverá, og Blanda á miðvikudaginn. Blanda er til alls vís, en hinar gætu orðið erfiðar vegna vatnsleysis. En kannski ekki, menn eru farnir að kunna ýmislegt þegar skilyrði eru vond og allt er að auki nýgenginn lax í ánum, ekki einhverjir legnir draugar sem hafa skoðað flugur svo vikum skipti.