Fallegur sjóbirtingur

VoV barst til eyrna nú í vikulok að Geirlandsá væri komin í útboð. Það eru tíðindi, Stangaveiðifélag Keflavíkur hefur verið með ána um árabil, hún er ein besta sjóbirtingsá landsins og hefur verið í uppsveiflu síðustu árin.

Gunnar Óskarsson formaður SVK staðfesti þetta við VoV og sagðist hafa frétt af þessu í vikunni. Hann sagði 2017 vera síðasta árið í samningi félagsins um ána. Eflaust verða margir sem senda inn tilboð og verður fróðlegt að sjá hvernig leikar fara. Sem fyrr segir er áin ein sú besta í sjóbirtingi sem til er hér á landi. SVK hefur farið vel með hana, tölur síðustu ára staðfesta það.