Tungufljót, sjóbirtingur
Flottur birtingur

Það hefur verið ágætisveiði í Tungufljóti það sem af er þessu vori. Alls er búið að færa til bókar um 150 sjóbirtinga og eru þeir flest allir af lengri gerðinni.

Sá stærsti sem við fundum skráðan í bókinni var 95 cm langur og var veiddur í Syðri-Hólma. Hann tók Black ghost straumflugu en ekki vitum við hvort það var Sævar eða Baldur sem krækti í þennan fisk.

VoV var á ferðinni þann 30.4 síðastliðinn. Aðstæður voru afar slæmar, austan rok og grenjandi rigning.Okkur tókst þó að setja í einn 72 cm hæng við brúna en við þurftum ekki að hafa fyrir því að kasta, það nægði að lyfta stönginni upp og gefa línuna út, rokið sá um restina. Samkvæmt upplýsingum frá Einari Lúðvíkssyni leigutaka fljótsins hafði síðasti hópur lítið orðið var á hefðbundnu stöðunum við Syðri Hólma og Flögubakka, en sett í nokkra neðar er rölt var niður með á. Voru menn að velta fyrir sér hvort að það þýddi að niðurgangan væri hafin, en það þarf alls ekki að vera, birtingurinn bunkar sig og þó að vanir menn séu á ferð þá er svæðið síbreytilegt og ekki gefið að menn hitti á fiskinn. En tíminn leiðir það í ljós.