Veiði hefur gengið prýðilega í Fnjóská að undanförnu, en það sem hefur þó vakið enn meiri undrun er óhemju stór sjóbleikja, en all nokkrar í yfirstærð hafa veiðst í ánni að undanförnu.

Þegar talað er um sjóbleikju þá eru þetta oftast 1-3 punda og ein kannski að slaga í 4 pund. Þessar í Fnjóská eru enn stærri, en við rákumst á frétt þessa efnis á FB síðu Matthíasar Þórs Hákonarsonar, sem er stórtækur veiðileyfasali á Norðurlandi. Hann hefur birt sömu myndir á FB síðu stangaveiðifélagsins Flúða á Akureyri sem að selur veiðileyfi í Fnjóská. Við stálum tveimur myndum til birtingar hér, en vísum í síður fyrrnefndra aðila þar sem lesendur geta skoðað fleiri myndir af þessum ótrúlegu bleikjum.