Styttist í laxinn – opnun Urriðafoss seinkað

Við Urriðafoss.

Fyrsti lax sumarsins verður væntanlega dreginn úr Urriðafossi í Þjórsá þann 1.júní. Samt þó verður ekkert um það fullyrt hér og nú. Sögðum bara „væntanlega“. Opnunin er færð aftur um nokkra daga, síðustu sumur hafa fyrstu veiðidagarnir í Urriðafossi verið síðasta vikan í mai og laxinn undantekningarlaust verið mættur og boðið til veislu.

Harpa Hlín Þórðardóttir, annar eigenda IO, sem er leigutaki margra svæða í Þjórsá sagði að áhugavert væri að athuga hvort laxinn væri hreinlega ekki byrjaður að sýna sig, Þjórsá verið vatnslítil og nánast tær núna vikum saman. En ástæðan fyrir seinkun snýst að sögn þeirra hjóna Hörpu og Stefáns Sigurðssonar, um að taka tillit til margra, t.d. veiðiréttareigenda ofar í ánni, ekki hvað síst við hliðarárnar Sandá, Fossá og Kálfá, sem vilja gjarnan sjá sem flesta laxa úr fyrstu göngunum skila sér ofarlega í vatnakerfið, því þó að Þjórsá sjálf fóstri stofn, þá eru hliðarárnar gríðarlega mikilvægar uppeldisstöðvar.

Það er mál sumra að hvergi sé snemmgengnari stofn á Íslandi en í Þjórsá. Einn sem við þekkjum sagðist svo frá að áður en Iceland Outfitters komu við sögu við Urriðafoss fyrir nokkrum árum, hefði viðkomandi haft áhuga á Urriðafosssvæðinu. Þar hefði hann veitt árum saman áður en svæðið var leigt til IO. Og hann var að setja í og landa grálúsugum stórlöxum um miðjan mai. Hvort að þetta er snemmgengnasti stofn landsins er samt sem áður álitamál, því margir muna enn eftir því þegar veitt var í net í Hvítá í Borgarfirði. Veiði hófst alltaf 20.mai og það var alltaf veiði, stundum lítið, stundum meira, en alltaf eitthvað. Þetta var flesta mati lax sem brunaði upp á efstu svæði Kjarrár. VoV þekkir til veiðimanns sem veiddi tvö nýgengna 12 punda laxa á Brennunni 20.mai eitt árið. Ætlaði að sjá hvort hann gæti nælt í sjóbirting í soðið.

En talandi um fyrsta lax sumarsins. Veiðivísir greindi frá fiski sem veiðimaður nokkur veiddi í Höklunum í Laxá í Kjós fyrir sirka viku. Voru leiddar getur að því að um nýgenginn lax væri að ræða.  Myndir voru birtar af fiskinum, sem var smár. Í athugasemdadálki undir fréttinni kom í ljós að menn voru varla að kaupa þetta, sumir töldu fiskinn vera sjóbirting, aðrir að um hoplax væri að ræða. Af myndunum að dæma þykir VoV sennilegast að þetta hafi verið lax, en ekki endilega nýgenginn fiskur. Ætlum við þó ekki að vera með neinar yfirlýsingar. Við spáum frekar í því stutt er í vertíð, þ.e.a.s. laxveiðivertíð og verður fróðlegt að sjá hvernig allt fer af stað.