Vertíðin opnar í skugga vatnsleysis

Norðurá, Norðurárdalur
Það er fallegt í Norðurárdal og það lítur vel út núna. Mynd -gg.

Þjórsá opnar í fyrramálið og hefur stolið senunni frá Norðurá og Blöndu, en Norðurá, ásamt Þverá, opnar á þriðjudag 4.júní og Blanda síðan daginn eftir. En það er alltaf eftirvænting eftir Norðurá og hver opnar? Eftir að SVFR hætti með ána hér um árið. Nú liggur það fyrir.

„Það er Guðrún Sigurjónsdóttir, bóndi á Glitstöðum, formaður Veiðifélags Norðurár og dóttir Sigurjóns fyrrverandi formanns til fjölda ára. Okkur þótti það tilhlýðilegt, þetta er sterk kona og máttarstólpi á marga vegu í héraðinu. Hún kann að vísu ekkert að veiða, en hún fær kastkennslu á mánudaginn,“ sagði Einar Sigfússon sölustjóri Norðurár í léttum dúr í samtali í dag.

Guðrún Sigurjónsdóttir, bóndi á Glitstöðum og formaður Veiðifélags Norðurár.

Það hafa sést laxar í Norðurá að undaförnu, sem endranær á þessum tíma, en aðstæður eru sérstakar þetta árið. „Við þurfum að hafa stangarskipan aðra en venjulega, svo er fyrir að þakka vatnsbúskapnum, en hann er eins hér og annars staðar víðast hvar á landinu. Þegar við höfum opnað síðustu ár hefur áin yfirleitt verið að renna í 30-40 rúmmetrum og hefur ekki þótt mikið miðað við síðustu árin á undan. Í dag var hún 4,4 rúmmetrar, svona eins og á ágústdegi eftir langa þurrka. Þetta er krefjandi, við getum til dæmis ekki haft stöng á Brotinu, sem oftar en ekki gefur fyrsta laxinn, því staðurinn heldur ekki fiski í þessu vatni. Í staðinn verður veitt af Eyrinni og meiri áherslur á holurnar undan Laxfossi og í Konungsstreng. En það er ljóst að menn verða ekkert með sökklínur og túpur núna, flotlínur, langir taumar og smáar flugur verður það eina sem hægt er að bjóða uppá,“ sagði Einar.

                                        Aldrei séð annað eins!

Við heyrðum líka í Pétri Péturssyni leigutaka Vatnsdalsár, en áin sú opnar ekki fyrr en 20.júní. Langt í það heldur betur. „Ég hef aldrei séð ána svona þau ríflega tuttugu ár sem ég hef verið hérna. Og er þá sama um hvaða árstíma um er að ræða,“ sagði Pétur og þar með vitum við að umrætt ástand er ekki aðeins á suðvestan – og vestanverðu landinu. „Ef að þetta breytist ekki þá gæti þetta orðið skelfilegt. Síðustu vikur hefur verið sólskin, norðangarri og 5-7 stiga lofthiti. Ég er í sjálfu sér ekki hræddur við sumarið nema að þetta endalausa sólskin gefi ekki eftir. Ég man eftir sumrinu 2000, það var ekki eins slæmt, en þá náði Flóðið 24 gráðum og Hnausinn 21-22 gráðum fram í miðjan ágúst. Það gekk enginn lax upp fyrir Flóð og ástandið þar var með þeim hætti að álar drápust í hitanum í Flóðinu. Það gerði síðan eitt óveður með flóði um miðjan ágúst og þá fór laxinn upp, en eftir það datt allt í það sama. Vonandi verður ekki endurtekning á því núna. En það sem er að gerast hefur gerst áður, það gæti lent samt verst á þeim sem eru að hækka veiðileyfin,“ bætti Pétur við.

Svo ræddum við Pétur um landið allt, og hann sagði: „Ég ók yfir Blöndu í gær og hún er lítil og tiltölulega hrein. Þetta tíðarfar er örugglega fínt fyrir hana. Norðausturhornið og Rangárnar tapa heldur varla á þessu. Það eru þessar dragár,“ bætti Pétur við.