Óhemjugóð bleikjuveiði og stórir fiskar!

Sjóbleikjan er spennandi sportfiskur.

Gríðarlega góð veiði hefur verið á silungasvæði Vatnsdalsár og maimánuður hefur sjaldan ef nokkru sinni verið betri, að sögn Péturs Péturssonar leigutaka árinnar. Þá segir Pétur að mikið sé um rígvæna bleikju.

„Þetta hefur verið einstaklega gott og maimánuður gaf um 600 fiska. Mikið af því er feit og stór sjóbleikja, mikið um 50 til 60 cm, 3 tilríflega 5 punda fiska. Þá hafa verið stórir staðbundir urriðar í aflanum og allt í allt er þetta frábær veiði,“ sagði Pétur. En Vatnsdalsá er afar vatnslítil nú um stundir eins og við höfðum eftir Pétri í frétt í gær. Vatnsleysi hefur þó sem betur fer minni áhrif á silungsgengdina, þó að líkast til hiki sjóbleikja og sjóbirtingur við Flóðið ef að ekki breytist veðrið á næstunni.