Enn einn merkilegur urriði – og hvílíkur vöxtur!

Tarquin
Hér er sá magnaði sem Tarquin greinir frá. Myndin er fengin af FB síðu Tarquins Millingtons-Drake

Einn af stjórum Frontiers veiðiferðaskrifstofunnar þekktu var ásamt félögum sínum að veiðum á ION svæðunum í Þingvallavatni fyrir fáum dögum. Veiddu þeir m.a. stórmerkilegan merktan urriða og vöxtur hans á þremur árum er gríðarlegur.

Tarquin Millington-Drake, en svo heitir Frontiersmaðurinn segir frá því á FB færslu að félagi hans Daryl Ewer hafði dregið á land stórmerkilegan urriða á ION svæðum Þingvallavatns þann 11. Mai. Tarquin greinir frá því að merkið hafi haft töluna 84 og félagi hans hafi komið númerinu til „líffræðingsins“ sem er væntanlega og örugglega Jóhannes Sturlaugsson, sem sendi þeim til baka upplýsingar um fiskinn. Þær eru sem hér segir:

Urriðinn var merktur3.júní 2016 á „the river beat“ sem við gefum okkur að sé Ölfusvatnsárós. Hann var þá 56,3 cm og vigtaður 2,250 kg. Nú, næstum þremur árum seinna, hefur heldur betur tognað úr honum, því að hann mældist 81 cm og 6,7 kg. Hann hafði sem sagt legst um 25 cm og þyngst um 4,5 kg á þessum þremur árum. Að meðaltali gerir það 8 cm og 1,5 kg á hverju ári. Augljóst að vatnið er mikil fæðukista fyrir þessa mögnuðu ránfiska.