Nýja veiðihúsið við Tungulæk komið vel á veg

Veiðihús við Tungulæk
Nýtt veiðihús í smíðum við Tungulæk, stefnt er að því að veiðimenn sem hefja haustvertíðina 1.september eigi þangað erindi. Mynd Jón Eyfjörð.

Eins og við greindum frá fyrr í vor þá er hafin bygging á nýju veiðihúsi við Tungulæk og mun hagur veiðimanna vænkast mjög við það, en sérstakt veiðihús hefur ekki verið starfrækt við þessa frægu sjóbirtingsá í ein tvö ár eða svo.

Tungulækur
Komið að löndun í Tungulæk í vikunni. Mynd, Axel Eyfjörð.

Mikil bygging var fyrir veiðimenn, allt of stórt raunar fyrir þriggja stanga á sem er aðeins fiskgeng um tvo kílómetra, en draumur fyrri eiganda var að setja fiskveg í fossinn í Guðbrandsdal og lengja þannig verulega veiðisvæðið. Þannig séð var verið að hugsa fram í tímann. En það fjaraði undan og húsið var selt Hótel Laka fyrir um tveimur árum síðan og eftir að nýir eigendur tóku við Tungulæk fyrir vertíðina í fyrra, var húslaust og umsjónarmenn árinnar í hörkuvinnu að útvega veiðimönnum gistingu í nágrenninu.

Nýja veiðihúsið verður hið glæsilegasta og er byggingin furðu langt komin eins og sjá má af myndinni sem hér birtist, en bygging hússins hófst nú í vor og er stefnt að því að það verði tilbúið þegar haustveiðin hefst þann 1.september, en sú törn stendur til 20.október eins og í fleiri sjóbirtingsám á svæðinu. Annars hefur vorveiðin gengið mjög vel og ekki von á öðru en að haustgangan verði einnig öflug.