Menn eru greinilega ekkert að örvænta

Veiðimaður í Neðri Dulsum í vikunni. Þar er fiskur að ganga og allt að stefna í rétta átt. Mynd Sturla Birgisson

Það er stærstur straumur í dag, sá þriðji eftir að laxveiðivertíðin hófst fyrir alvöru. Veiðin hefur víðast hvar, ekki þó alls staðar, farið afar rólega af stað og sárlega vantað „2 ára laxinn“. Og þá þarf smálaxinn að bjarga vertíðinni, en hann hefur skilað sér seint. En hvað segja umsjónarmenn nú í straumi í miðjum júlí sem hlýtur að skera nokkuð úr um hvað í vændum er?

Við tókum fjóra aðila tali í kvöld, einn fyrir hvern landshluta. Við byrjuðum á Haraldi Eiríkssyni leigutaka Laxár í Kjós og hann sagði:  „Lítur bara vel út, sterkar göngur hjá okkur síðast liðna 10 daga. 20 laxa dagur í dag þrátt fyrir þverrandi vatn. Sjóbirtingur líka kominn í pottinn.“ Orð Harlaldar endurspegla orð fleiri á Vestur- og Suðvesturlandinu. Þrátt fyrir lágar tölur eru göngur. 18 laxa holl í Hítará, 15 laxa dagur í Straumfjarðará og 20 laxa dagur í Laxá í Leirársveit. Lax að stökkva um alla Brennu og í Straumum og veiði að glæðast í Borgarfirði þrátt fyrir þurrka og þverrandi vatn. Nú er væta í kortunum samhliða stórstreymi.

Við heyrðum líka í Sturlu Birgissyni, leigutaka og umsjónarmanni við Laxá á Ásum og hann sagði:  „Þetta er búið að fara rólega á stað, vantar 2ára laxinn sem ég bjóst við. En ég er bjartsýnn á smálaxagöngur, ég var í ósnum rétt áðan og sá fullt af laxi að ganga inn, við lönduðum 4 löxum á 30 mín. Var með útlendinga og ég var bara sýna þeim ósasvæðið á þá sá ég fullt af laxi stökkva útum allt.“

Eftir að hafa heyrt af lofandi fréttum af opnunum Sogsins og Stóru Laxár þá leitaði hugurinn samt að Rangárþingi. Við heyrðum næst í Jóhanni Davíð Snorrasyni, sem er sölustjóri Eystri Rangár. Fyrir skemmstu vorum við með lýsingu Kristins Ingólfssonar hjá veida.is um stöðuna í Ytri Rangá. Allt passar þetta saman, en Jóhann sagði í kvöld: „Þetta er ennþá nokkuð rólegt með upp í mest 30 laxa à dag í Eystri. Farinn að koma smálax en í mjög litlum mæli. Þetta er allt seinna á ferðinni í ár og við bíðum spennt eftir fyrstu stóru göngunum, vonandi í þessum straumi.“

Síðan heyrðum við í kvöld í Gísla Ásgeirssyni, umsjónarmanni Selár og Hofsár undir nafni Six River Project nú orðið og Gísli sagði: „Staðan er ágæt. Sökum hlýinda gengur fiskur hraðar. Árnar hafa verið um og yfir 15 stiga heitar. 200 í teljaranum í Selárfossi sem er töluvert meira en í fyrra. Veiðin verið bara góð. Eitthvað rólegri en í fyrra en bara góð. Það sama á við um Hofsá.“