Besta byrjun í Heiðarvatni frá upphafi

Heiðarvatn.
Glæsilegur birtingur úr Heiðarvatni í morgun. Mynd, aðsend.
Guðlaugur Helgason, Heiðarvatn
Guðlaugur Helgason með fallegan sjóbirting, gríðarlega vel haldinn eftir smábleikjuát í vor, í Heiðarvatni í gær. Mynd aðsend.

Líklega besta opnun frá upphafi var í Heiðarvatni í Heiðardal ofan Mýrdals í gær, vatnið var opnað. Það hefur ekki alltaf verið hægt 1.mai, vatnið liggur fremur hátt, en vorið hefur verið ljúft og það bauð upp á opnun óvenju snemma. Veiðin var mögnuð, enda er vatnið magnað.

Heiðarvatn, Aron Sigurþórsson
Aron Sigurþórsson með fallegan staðbundinn urriða úr Heiðarvatni í gær.

Þeir sem opnuðu voru í tæplega tvo veiðidaga og bara þrír saman. Í gærmorgun var blíðskaparveður, en lítil taka nema í staðbundnum urriðum, en þegar leið á morguninn fóru stóru bökin að sýna sig langt úti í vatni. Þá dugðu engin vettlingartök og spúnninn dreginn fram. Og ekki stóð á viðbrögðunum. Þarna er mikið að sjóbirtingi, sem gengur í vatnið um Vatnsá og Kerlingardalsá. Hrygnir í ánum en bíður af sér veturinn í vatninu. Þar er mikið af silungi af öllum stærðum sem þessir ránfiskar gæða sér á þegar hlýna tekur. Þarna eru menn að veiða sjóbirting fram í júní, hann er ekkert að flýta sér til sjávar.

Þeir sem opnuðu fengu ríflega hundrað fiska og var ca 70 prósent af því sjóbirtingur. Þeir voru allt að 78,5 og 78 cm sem voru stærstu fiskarnir. Allt var veitt á spón og flugu. Mest á spón þar sem fiskur lá svo langt úti. Mikið er af bleikju í vatninu, en hún gaf sig lítt. Miðað við hitastig í vor mun hún þó eflaust færa sig inn á grunnið fyrr en síðar.