Frábær byrjun í Hlíðarvatni!

Hlíðarvatn, Einar Falur
Fallegar bleikjur úr Hlíðarvatni. Mynd Einar Falur.

Veiði hófst í Hlíðarvatni í Selvogi í gær og er óhætt að segja að ballið hafi farið af stað með stæl. Mikil veiði var og mikið af fiski. Þá var eftir því tekið hversu vel haldin bleikjan var, einnig hvað hlutfall stórra fiska var hátt.

Á veiðileyfasöluvefnum veiða.is er haft eftir Kristjáni Friðrikssyni formanni Ármanna, sem er einn þeirra hópa sem eru með leiguítök í vatninu, að ef veiðin í gær væri forsmsekkurinn af því sem koma skyldi, þá væri veisla í vatninu í vændum. Þá er getið um að fiskur hafi greinilega notið hins hlýja apríl og legið í nægu æti. Óvenju margir fiskar hafi verið „stórir“ og miðast þá við 40 cm. Alls voru Ármenn með 60 skráða fiska og giskaði Kristján á að heildarveiðin í vatninu hafi verið „vel yfir 120 fiska“, eins og þar segir.

Einar Falur Ingólfsson var í vatninu í morgun og sagðist hafa það frá mönnum að gærdagurinn hefði verið sérlega skemmtilegur, logn og uppitökur um allt. Ármenn hafðu t.d. veitt um 60 bleikjur og þar af slatta á þurrflugur. „Í morgun var þó kominn rigning og vindur. Fór þó heim með sex bleikjur og sleppti öðru eins, er því sáttur,“ sagði Einar í skeyti til VoV.

Annars er upplagt fyrir lesendur að skjóta sér yfir á www.veida.is og skoða þar mun meira tæmandi uppýsingar úr skýrslu Kristjáns Friðrikssonar