Hraunsfjörður, Atli Bergmann
Fallegur afli úr Hraunsfirði um helgina. Myndina tók Atli Bergmann.

Silungasvæðin sem seinna taka við sér eru að detta inn eitt af öðru að undanförnu þrátt fyrir að á heildina litið hafi tíðarfar verið í kaldara lagi. Nokkrir hlýir dagar fyrir skemmstu hleyptu þó víða lífi í tuskurnar, m.a. í Hraunsfirði þar sem menn egna fyrir sjóbleikju í söltu sjávarlóni/firði. Þar kom mjög gott skot þegar hlýnaði á dögunum.

Hraunsfjörður, Atli Bergmann
Atli Bergmann sáttur með aflann og má vera það!

VoV heyrði í Bjarna Júlíussyni sem haft hefur eftirlit og gæslu við Hraunsfjörð um nokkurt skeið. Hann sagði aðspurður: „Hraunsfjörður er búinn að vera dyntóttur í vor, enda búið að vera kalt lengst af. En það hlýnaði duglega í síðustu viku og það var nóg til að kveikja í firðinum. Mikið af vænni bleikju var á ferðinni hraunsmegin. Veiðimenn voru að gera fína hluti um helgina. Bæði út af Búðarnesinu og svo norður og vestur allar litlu hraunvíkurnar. Það var marfló af ýmsum gerðum sem var að gefa vel, heyrði reyndar af veiðimönnum sem voru að fá hana á Langskegg. En það var mál manna að hún væri ekki að taka einhverja eina flugu, menn þurftu virkilega að hafa fyrir því að skipta reglulega. Þetta er með bestu maí skotum sem ég man eftir í seinni tíð!“

Undir þetta tók Atli Bergmann sem var þar um helgina og léði okkur myndirnar sem þessum pistil fylgja. Atli sagði að ýmis Marflóarafbrigði með kúluhausum hefðu gefið og einnig töfraflugan Langskeggur, en galdurinn hefði verið að Skipta oft um flugu. “Þetta var frábær dagur”, sagði Atli í skeyti til okkar.