Langadalsá
Fallegur lax úr Langadalsá. Árið er 2018. Mynd David Thormar.

Laxveiði er nú lokið í Djúpinu sem mikið er spáð í vegna strokulaxa úr opnum sjókvíum á þeim slóðum. Þar eru fjórar ár sem að teljast gildandi í laxveiði, Langadalsá, Laugardalsá, Hvannadalsá og Ísafjarðará, en það eru þær tvær fyrrnefndu sem eru öflugastar. Báða voru betri en í fyrra, sérstaklega var batinn umtalsverður í Langadalsá.

Aron Jóhannsson heldur utanum FB síðu um Langadalsá, sem er honum sérlega kær og hann tók saman lookatölu og ýmislegt fleira: „Lokatölur laxveiðinnar úr Langadalsánni hljóðuðu upp á 237 laxa eða 99 löxum meira en á síðasta ári þannig að batinn er umtalsverður. 31 sjóbleikja veiddist. Aflahæstu staðir voru Hesteyrarfljót (35), Kirkjubólsfljót (23), Tíu-Ellefu (21), Laugarstrengur (19), Túnfljót (19) og Efra-Bólsfljót (16). Alls gáfu 33 veiðistaðir laxa í sumar. Fengsælustu flugurnar voru Rauð Frances (56), Svört Frances (47), Sunray Shadow (28), Álfurinn (13) og Silfurnálin (12). Sleppihlutfall yfir heildina var tæp 28% en öllum stórlaxi (36) var sleppt skv. bók en 30 smálöxum af 201. Mikill meirihluti laxins var hængar eða 171 hængur á móti 66 hrygnum.“

Á sama tíma skilaði Laugardalsá líka betri útkomu en í fyrra, en minni bata þó. Hún gaf 198 laxa miðað við 175 í fyrra og munar ekki nema 23 löxum. En að það séu fleiri laxar að veiðast í ánni er bara fínt því að áin hefur verið í dálitlum öldudal, það er lengra síðan en 2015 að það veiddist í ánni 521 lax og árið 2010 veiddust þar 548 laxar og 2009 501 lax!. Kannski er hún að koma aðeins til baka.

Af Ísafjarðará og Hvannadalsá höfum við lítið heyrt annað en að sú síðarnefnda var ð gefa skot framan af sumri. En engar tölur höfum við, aðrar en óstaðfesta tölu um 103 laxa úr Hvannadalsá og nokkrar bleikjur. Ef einhverjir lesenda okkar búa yfir slíkum upplýsingum væri fengur að þeim.