Heiðarvatnið allt að koma til

Heiðarvatn
Falleg bleikja úr Heiðarvatni, 42 cm en þær eru til mun stærri.

Heiðarvatn í Heiðardal ofan Mýrdals er nú allt að koma til eftir fremur brokkgengan maimánuð. Mánuðurinn var ekki sérlega hlýr þar efra og veður oft erfið veiðimönnum. En þetta vatn er smekkfullt af fiski og það hefur verið þokkalegt kropp þegar aðstæður hafa leyft.

Vatnið var opnað 1.mai og fengustþá á þriðja tug fiska sem var að uppistöðu fyrst og fremst urriði, bæði staðbundinn og sjógenginn. Enn er sá fiskur uppistaðan í veiðinni, skilyrði hafa ekki hleypt bleikjunni á kreik til þessa en nú er allt að stefna í rétta átt með það. Bleikjustofn vatnsins er mjög sterkur og fiskur jafnan vel vænn.

Veiðimenn í Heiðardalnum búa nú eins og kóngafólk í nýju húsi, sem er þó raunverulega hið gamla, bara allt stækkað, endurgert og  endurbætt.