Sjóbirtingssporður, laxahaus og doppusístemið órætt.

Nokkur umræða hefur verið um laxbirtinga á þessu vori. Þeir eru eins og nafnið bendir til blendingar lax og sjóbirtings og geta útlitseinkenning verið breytileg eftir því hvort að hrygnan var hængur eða hrygna og hængurinn sömuleiðis. Einn sem sagt hefur verið frá var t.d. með hreinan laxahaus en urriðasporð. Þessir fiskar eru ekkert nýir af nálinni.

Kynblendingur, það getur verið erfitt að sjá hvers eðlis er, en á merkti mynd sem við fundum á Google þá var þessi skilgreindur sem blendingur.

Oftast hefur þeirra verið getið við Tungulæk, en þeir hafa sést víðar. Einn frá því vor var t.d. úr Eldvatni og annar úr Leirá, þó að flestir sem VoV hefur hlerað hafi talið þann fisk hreinan sjóbirting. Hafa ber þó í huga að á mynd sást ekki í styrtlu og sporð. Sá úr Eldvatninu var hins vegar kyndugur.

Blendingar sjóbirtings og lax eru ófrjóir. Þótt urriði og lax séu náskyldir ná þeir ekki að geta af sér frjó afkvæmi þótt slíkt sé annars vel þekkt í náttúrunni. Á sínum tíma tímguðust t.d. hvítmávar og silfurmáfar í Vestmannaeyjum og afkvæmin gátu verpt og komið upp ungum. En fugl er ekki fiskur.

Ef til við er þetta skemmtilega fyrirbæri þekktast frá Tungulæk í Landbroti vegna þess hversu þröngt er um mikið af fiski á hrygningarsvæðum árinnar. Mest af fiski Tungulækjar er sjógenginn urriðin, en það er alltaf slangur af laxi í bland og því geta tegundirnar blandast hvort sem það er óvart vegna þrengsla eða viljandi, sem að verður líklega seint sýnt fram á.

Á þessari teikningu má sjá lax að ofan, birting að neðan. Sporðurinn sýldur á laxi, þver á birtingi, dýpri kjaftvik á birtingi, en doppumálið getur verið til og frá.

Frásagnir vorsins hafa verið á Sporðaköstum mbl.is og var þar getið í texta um einn sem að sérfræðingur staðfesti og Össur Skarphéðinsson veiddi. Hann var þó ekki almennilega myndaður vegna birtuskilyrða. Hreistursýni leiddi þó í ljós að um laxbirting var að ræða. Fiskurinn vóg 10 pund, veiddur seint að hausti og silfraður eins og geldfiskur. Ef til vill er þetta ein af skýringunum á því að mjög stórir „geldfiskar“ eru jafn tíðir í Tungulæk og raun ber vitni. 6 til 10 punda eru vel þekktir og á sama tíma eru menn að veiða 2-3 punda þroskaða hrygningarfiska.

Fyrrum eigandi Tungulækjar, Þórarinn kristinsson, veiddi eitt sinn í miðjum maimánuði þrjá fiska sem allir voru furðu líkir, um 5 pund og silfurbjartir. Þeir voru svo laxalegir að Þórarinn hélt sig hafa veitt fyrstu laxa þeirrar vertíðar og þótti með ólíkindum. Það var samt eitthvað við þá sem kallaði á nánari skoðun og í ljós kom að allir voru ófrjóir blendingar. Sem dæmi um hversu erfitt það getur verið að sjá hvort fiskur er hrein tegund eða blendingur, þá landaði ritstjóri um árið 3 punda fiski í Laxfossi í Laxá í Kjós. Hann var silfurbjartur og minnti um margt á birting, en að einhverju leyti á lax. því miður er ekki til af honum mynd, en fiskifræðingar fengu hreistursýni sem sagði að fiskurinn hefði verið 100 prósent sjóbirtingur.

Ristjóri þessa vefs hefur sjálfur þrívegis séð fiska dregna úr Tungulæk sem báru skýr einkenni beggja tegunda. Allir veiddir að voru og á bilinu 3 til 6 pund.

Einu öðru atviki man VoV eftir í svipinn, atvik sem ristjóri var vitni að. Það var í Ármótunum í Geirlandsá. Komið vel fram í október og veiðimaðurinn Birgir Sumarliðason sem þá var kenndur við Ferðabæ og nat.is setti í og landaði silfurbjörtum fiski sem bar einkenni beggja tegunda, haus eins og birtingur, sporð og styrtla að hætti laxa. Þetta var 11 punda fiskur sem var hirtur (ekki mikið sleppt í þá daga) og þegar fiskurinn var slægður fyrir frystingu í veiðihúsinu kom í ljós að fiskurinn var með engin æxlunarfæri.

Þetta er skrýtið og skemmtilegt fyrirbæri. Og alls ekki óþekkt eða beinlínis sjaldgæft þegar upp er staðið