Laxinn að vaða upp, smálax líka

Andrés Eyjólfsson, Þverá
Andrés Eyjólfsson frá Síðumúla með fyrsta lax sumarsins úr Þverá 2018, 82 cm úr Guðnabakkastreng. Mynd Ingólfur Ásgeirsson.

Laxinn er að sýna sig út af allar jarðir þessa daganna. Víða fyrr en venjulega og er það í anda þess að sláttur er að hefjast á Suðurlandi 3 vikum fyrr en vant er. En það eru samt blikur á lofti, vatn er þverrandi og minnir nú á seinni hluta júlí í þurrkasumri. Fiskur stoppar nú hvergi, heldur rennur upp árnar.

Við heyrðum aðeins í Andrési Eyjólfssyni í Síðumúla sem löngum hefur verið umsjónarmaður og leiðsögumaður í Þverá. Hann hefur verið að fylgjast með ánni síðustu daga og vikur. Staðan er bæði lofandi og hið gagnstæða. „Ég fór í síðustu viku og sá nokkra boltalaxa, bæði í Guðnabakkastrengjum og Kaðalstaðahyl. Nokkra fiska. Svo fór ég með Alla Péturs,leiðsögumanni, og hann sá allt að fjórtán fiska í Kaðalstaðastrengnum. Daginn eftir var ég einn á ferð og sá 7-8 á sama stað, þannig að hann rennur hratt upp ána og er klárlega kominn upp í Kjarrá líka, enda sást til stórlax ryðjast upp grynningar á Norðtungueyrum um helgina. Það er líka áhugavert, að við höfum líka séð smálaxa í göngu við hliðina á þeim stóru og að sjá þá sjón í mai er vægt til orða tekið óvenjulegt. En ástandið í vatnsbúskapnum er ekki beysið. Árnar eru núna eins og í seinni hluta júlí í þurrkasumri og menn verða að nota granna tauma og örsmáar flugur alveg frá opnun ef einhver árangur á að nást. Hvernig þetta fer síðan fer eftir því hvað veðurguðirnir ákveða, en fyrir tíu dögum flaug ég yfir Tvídægru. Þar var ekkert vatn á ís og aðeins 4-5 skaflar. Minnti meira á september eða októberdag eftir fyrstu snjókomulægðina. Sama var uppi á teningunum við Víghól.“

Aðspurður um flugufregnir um að lax hefði veiðst á Brennutanga þann 11.mai, sagðist Andrés ekki geta staðfest það. „En ég yrði ekki hissa á því. Í gamla daga settu menn netin út 20.mai og það var alltaf veiði, stundum meiri, stundum minni, en alltaf fiskur. Og svo hafa alltaf verið fregnir af löxum að veiðast á svæðinu í mai þegar silungsveiðimenn eru að reyna að ná sér í sjóbirting.“

Þessar fregnir úr Borgarfirðinum eru í takt við annað sem heyrst hefur. Laxinn löngu kominn í Kjósina, í morgun í Elliðaárnar staðfest þó að menn hafi séð fiska síðustu daga sem menn voru ekki tilbúnir að staðfesta. En það gerist ekki á hverju ári að lax sjáist í Elliðaánum í mai. Það er líka óstaðfest að lax hafi sést um helgina í Sjávarfossi í Korpu. Tveir laxar sem æddu niður strengina þegar gengið var fram á litla klettinn.

Þjórsá, Urriðafoss, Iceland Outfitters, IO
Kunnugleg sjón við Urriðafoss í Þjórsá síðustu tvö sumur . Myndin er fengin af FB síðu Iceland Outfitters, IO.

Þjórsá verður fyrst að opna á laugardagsmorgun og þann 26.mai voru leigutakar Urriðafoss með kynningu á svæðinu. Við Urriðafoss eru tveir megin veiðistaðir, Hulda og Lækjarlátur. Í Huldu var augljóslega talsvert af fiski og þeir sýndu sig líka í Lækjarlátri. Þannig að fróðleg verður opnin þar.

Þá er Blanda ekki undanskilin því þar gengur fiskur snemma þó að áin sé á Norðurlandi. Höskuldur Birkir Erlingsson sagði okkur í dag að það væru nokkrir dagar síðan að hann horfði á tvo „stórlaxa“ í Holunni.  Jón Helgi Björnsson á Laxamýri sagði í samtali í kvöld að hann þyrfti að fara að drífa sig niður á „Bjarg“ og tékka, laxinn hlyti að vera kominn í ána, og líklega einhverjir upp fyrir Æðarfossa.

Frá 1.-5.júní opna fjórar ár: Þjórsá þann 1.júní og 4.-5.júní Norðurá, Þverá og Blanda. Síðan koma þær koll af kolli.