Norðurá, Norðurárdalur
Það er fallegt í Norðurárdal og það lítur vel út núna. Mynd -gg.

Norðurá verður opnuð í fyrramálið og sérstakur gestur verður enginn annar en Gylfi Þór Sigurðsson knattspyrnuhetja númer eitt á Íslandi. Stefnt er að öðrum gesti, nafn liggur ekki á lausu enn sem komið er, en vonast er til að það verði knattspyrnuhetja af hinu kyninu.

Gylfi Þór Sigurðsson
Gylfi Þór Sigurðsson verður sérstakur gestur við opnun Norðurár í fyrramálið.

Einar Sigfússon sölustjóri Norðurár staðfesti þetta í samtali við VoV í dag. Þetta er þriðja sumarið sem sérvaldir gestir opna ána, fyrst voru það söngsnillingarnir Bubbi og Bo og í fyrra aðrir söngsnillingar, en öðru vísi, Kristján Jóhannsson og Kristinn Sigmundsson.  Einar sagði enn fremur að veiði myndi ekki hefjast í býtið eins og vant er, heldur færi stór hluti morgunsins í afhendingarathöfn, en svo mikið hefur verið smíðað við og endurbætt að kalla má að veiðihúsið á Rjúpnahæð sé nú nýtt hús. Verður húsið m.a. blessað og formanni veiðifélagsins, Guðrúnu Sigurjónsdóttur afhentir lyklar. Veiðiskapurinn hefst ekki fyrr en klukkan ellefu og verður spennandi að sjá hver veiðir fyrsta laxinn, Gylfi Þór eða hin ónefnda knattspyrnugyðja.

„Horfur eru frábærar, vatn er fallegt og mikið hefur sést af laxi síðustu daga,“ sagði Einar enn fremur, glottandi út í bæði.