Kyngimagnaðar tölur af ION svæðunum

Ölfusvatnsárvík
Einum vænum sleppt í Ölfusvatnsárvík.

Stórkostleg veiði hefur verið í vor á svokölluðum ION svæðum í Þingvallavatni þar sem fremstu veiðistaðirnir eru Þorsteinsvík og Ölfusvatnsárós. Ótrúlegar veiðitölur hafa sést og sömuleiðis tölur um meðalþyngd.

Jóhann Hafnfjörð Rafnsson sem leiðsegir veiðimönnum á svæðinu hafði þetta að segja: „Já veiðin á Ion svæðunum er búin að vera ótrúleg þetta árið. Eftir 10 daga veiði eru komnir yfir 600 urriðar á land. Meðal-þyngd um 3,5 kg og stærstu fiskar milli 9 og 10 kg. Búnar að vera hagstæðar aðstæður til veiða, rigning og hlýtt. Mest fengist á streamera en einnig töluvert á púpur og þurrflugur þegar veður hefur leyft.“

Við orð Jóhanns má bæta að þetta gerrir litla 60 fiska á dag. Og enn má við bæta að Ion Fishing ehf, en svo heitir leigutakafélagið, hefur nú endurnýjað leigusamning við OR um hluta þesssa svæðis, þ.e.a.s. Þorsteinsvíkina sem er í landi Nesjavalla. Í útboði bárust 4 tilboð og var Ion Fishing með hæsta boð, ríflega 7,2 milljónir á ári til og með 2020. Hreggnasi og Fishpartner voru næstir á líkum nótum, 6,5 milljónir hjá Hreggnasa og 6,1 nilljón hjá FP. Síðan var félag að nafni Fly fishing in Iceland með lang lægsta tilboðið, eða 2,2 milljónir.