Svartstokkur, Kjarrá
Losað úr glæsilegri 76 cm hrygnu.

Hver er eiginlega staðan á laxveiðileyfamarkaðinum? Þó að vitað sé að sumum veiðileyfasölum gengur betur en öðrum þá eru skoðanir óvenju skiptar þessa daganna, allt frá því að haldið sé fram að allt sé rósum stráð yfir í að markaðurinn sé níðþungur og sá erfiðasti í að minnsta kosti 5-6 ár.

Vangavelturnar fóru í talsverð hámæli í kjölfarið á viðtali Viðskiptablaðsins við Ara Hermóð Jafetsson framkvæmdastjóra Stangaveiðifélags Reykjavíkur þar sem hann lofaði markaðinn, sagði sölu ganga vonum framar, að vissar ár væru svo gott sem uppseldar og aðrar í betri stöðu en lengi vel. Í viðtalinu segir hann meðal annars:

„Svo ég nefni dæmi þá er Haukadalsá uppseld og salan í Langá hefur ekki gengið betur í mörg ár. Við finnum fyrir því að íslenskir veiðimenn hafa meira fé milli handanna nú en þeir hafa haft á síðustu árum. Það er alveg augljóst.“

Stuttu seinna sendi Kristján Benediktsson sölustjóri SVFR út dreifipóst þar sem hann vakti athygli á spennandi lausum laxveiðileyfum. Þar nefndi hann 8-10 stangir 12-15 júlí í Langá, 3 stangir 24-27.júlí í Langá og 3 stangir 27-30.júlí í Langá. Í vefsölu má síðan sjá að ellefu stangir eru lausar 30.júlí til 11.ágúst, 4 stangir 20-22.ágúst og 2 stangir 26-28.ágúst.

Um líkt leyti setti Árni Baldursson eigandi Lax-á út status á Facebook þar sem hann taldi upp marga valkosti af lausum laxveiðileyfum. Þar mátti meðal annars finna þrjú óseld 4 stanga holl á frábærum tíma á svæði 1 í Blöndu, sem er eitt magnaðasta veiðisvæði landsins og besta snemmsumarssvæðið. Einnig mátti finna lausar stangir upp um alla Blöndu, margar lausar stangir á fínum tíma í Eystri Rangá og góðan slatta af lausum leyfum í allskonar ám og má nefna Ytri Rangá, Stóru Laxá, Leirvogsá og Svartá.

Veiðileyfasalar bera sig jafnan vel þegar VoV ræðir við þá, en ef þeir vilja segja opinskátt frá slæmri reynslu sinni af markaðinum hverju sinni þá biðja þeir oftast um nafnleynd. Að við nefndum Ara, Stjána og Árna Bald hér er vegna þess að þeir settu fram upplýsingarnar undir nafni. En VoV tók púlsinn á tveimur mjög stórum í bransanum og þeir höfðu aðra sögu að segja. Annar tveggja er með tvær frægar á sinni könnu, sagði aðra þeirra (sú með færri stangirnar) vel selda „að venju“ eins og hann sagði, en hin (með margar stangir) væri þyngri. Hann taldi að erlendi markaðurinn væri að verða erfiðari sökum styrkingar krónunnar. „Landið og veiðileyfin eru einfaldlega komin að þolmörkum og veiðimenn leituðu í vaxandi mæli annað þar sem ævintýrin kostuðu minna. Ekki síst til suðurhafseyja sem mikið hefur verið fjallað um og verið m.a. kynnt veglega hér heima. Þá var veiðin nokkuð langt frá því að vera framúrskarandi síðasta sumar og gæti staðan þyngst enn ef að komandi sumar verður ekki með betra móti,“ sagði umræddur veiðileyfasali. Hann bætti við að fyrirspurn eða jafnvel pöntun á veiðileyfi jafngilti ekki að allt væri frágengið og viðkomandi dagar farnir. Mikið væri um að ekkert heyrðist meira, eða að pantanir væru dregnar til baka.

Hinn sem við ræddum við var enn ómyrkari í máli og velti fyrir sér hvað framkvæmdastjóra SVFR gengi til með því sem hann sagði í umræddu viðtali við Viðskiptablaðið. „Hann er að kynda undir landeigendur á sama tíma og markaðurinn er gríðarþungur. Og það merkilega er að það er Íslendingamarkaðurinn sem er erfiður. Sportið er í mikilli vörn, svo einfalt er það. Kaupgetan heima er til staðar, en kaupviljinn er enginn. Þetta er ekki flókið. Markaðurinn er einfaldlega mjög þungur. Þyngri en undanfarin 5-6 ár.“